Fimmtudagur 14. desember 2017 kl. 20:00

Suðurnesjamagasín á flugi

- Airport Associates 20 ára og gamla flugstöðin verður senn rifin!

Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar nú í kvöld kl. 20:00. Þátturinn í þessari viku er á flugtengdum nótum. Í síðari hluta þáttarins heimsækjum við fyrirtækið Airport Associates á Keflavíkurflugvelli. Það er núna með yfir 500 manns í vinnu og hefur starfað við flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli í tvo áratugi. Fyrirtækið var að flytja í nýjar höfuðstöðvar í síðustu viku.
 
Við byrjum hins vegar þáttinn í hálfgerðri nostalgíu. Gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli var byggð fyrir rétt tæpum 70 árum. Hún hefur staðið auð og grotnað niður frá því Varnarliðið yfirgaf Keflavíkurflugvöll. Nú á að rífa gömlu flugstöðina og byggja flugskýli á lóðinni. Við hittum Friðþór Eydal og ræddum við hann um sögu flugstöðvarinnar sem hann þekkir nokkuð vel. 
 
Þátturinn endar svo á svipmyndum frá jólafimleikasýningu Fimleikadeildar Keflavíkur.