Suðurnesjamagasín: 8000 kaloríur á dag og hefur þyngst um 60 kíló á stuttum tíma
Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is í kvöld kl. 20:30.
Theodór Már Guðmundsson stefnir að því einn daginn að verða sterkasti maður heims. Theodór, sem er 24 ára gamall og 208 sentimetrar á hæð, segist hafa fengið brennandi áhuga á aflraunum eftir að hafa séð mynd um Jón Pál Sigmarsson og gert sér grein fyrir því að hávaxnir drengir ættu ekki einungis heima í körfubolta. Síðan árið 2011 hefur Theodór bætt á sig sextíu kílóum af vöðvamassa og segir töluna fara hækkandi, enda reyni hann að borða um átta þúsund kaloríur á dag. Theodór Már er í viðtali við Suðurnesjamagasín.
Hefurðu áhuga á að starfa í góðum félagsskap? Slysavarnardeildin Dagbjörg í Reykjanesbæ býður fleiri velkomna til starfa með þeim í húsnæði Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Konurnar í slysavarnadeildinni eru á öllum aldri og karlmenn eru einnig velkomnir en Dagbjörg starfar sem bakhjarl björgunarsveitarinnar. Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir er núverandi formaður Dagbjargar. Hún og aðrar slysavarnakonur eru í viðtali við Suðurnesjamagasín. Einnig Daníel Guðni sem hélt áhugaverðan fyrirlestur fyrir slysavarnafólkið á dögunum.
Biðin hefur verið löng og ströng eftir nýrri slökkvistöð á Suðurnesjum en nú mun ný slík rísa við Flugvelli 29 í Reykjanesbæ. Skrifað var undir samninga í síðustu viku en kostnaður við byggingu slökkvistöðvarinnar er um 730 milljónir króna. Við vorum á staðnum og ræddum við Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóra sem er ánægður með að bygging stöðvarinnar sé að hefjast.