Föstudagur 24. mars 2017 kl. 15:49

Suðurnesjamagasín 23. mars 2017

- fimm skemmtileg innslög í þætti vikunnar

Suðurnesjamagasín Sjónvarps Víkurfrétta var á dagskrá Hringbrautar í gærkvöldi. Þátturinn er nú aðgengilegur á vef Víkurfrétta.
 
Textahöfundurinn Þorsteinn Eggertsson er eitt af söngvaskáldum Suðurnesja. Tónleikar voru haldnir honum til heiðurs í Hljómahöllinni á dögunum. Við vorum þar.
 
Í Gerðaskóla er sótsvartur húmor í uppsetningu á leikverkinu Morð. Uppsetning á verkinu er í samstarfi við Þjóðleik sem er leiklistarhátíð ungs fólks á landsbyggðinni í nánu samstarfi við Þjóðleikhúsið.
 
Mikil gróska er í júdóíþróttinni í Grindavík og Vogum en samtals æfa þar um 70 iðkendur. Á undanförnum áratugum hefur skapast mikil hefð fyrir íþróttinni í þessum bæjarfélögum. Við kíktum á júdóæfingu og ræddum við þjálfara og iðkendur.
 
Það eru fjölmargar gersemar í safngeymslum Byggðasafns Reykjanesbæjar. Þar eru meðal annars fjölmargir munir frá tímum Varnarliðsins.
 
Við endum svo þáttinn á grjóthörðu rokki. Það stendur mikið til hjá rokkurum en blása á til tónleika á Paddy’s þar sem líklega síðasta kynslóð bílskúrsbanda af Suðurnesjum mun rifja upp gamla takta undir heitinu Rykið af rokkinu. Við hittum fyrir strákana í Tommygun Preachers á æfingu í sögufrægum bílskúr í heimahúsi á Vallargötu í Keflavík.