Suður með sjó: Ungmenni gagnrýna mætingakerfi í framhaldsskólum
„Námið kemur ekki alltaf til móts við mann en ég held það einskorðist ekkert við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ég held það sé bara nám á Íslandi yfir höfuð. Það þarf að komast í takt við samtímann,“ segir Júlíus Viggó Ólafsson, nýr formaður nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en hann, ásamt þeim Dagnýju Höllu Ágústsdóttur og Karín Ólu Eiriksdóttur, er gestur næsta þáttar af Suður með sjó sem sýndur verður á sunnudagskvöld á Hringbraut kl. 20:30.
Þau Dagný, Júlíus og Karín eiga það sameiginlegt að vera með sterkar skoðanir á stjórnmálum og hafa reynt að hafa áhrif á samfélagið með ýmsum hætti þrátt fyrir ungan aldur. Í þættinum ræða þau meðal annars skólakerfið á Íslandi og eru gagnrýnin á mætingakerfi Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem þau stunda nám. Það sé letjandi fyrir námsmenn að mörgu leyti.
„Ég er mjög ánægð með skólann og líður vel þar en árið er samt 2019 og mér finnst margar kennsluaðferðirnar úreltar. Ég er hins vegar rosalega ánægð að sjá að margir áfangar eru orðnir lausir við lokapróf. Það gengur vel að læra jafnt og þétt yfir önnina,” segir Karín og hin taka undir það. Kennararnir séu yndislegir og skólinn almennt mjög fínn.
„Mér finnst mætingakerfið í skólanum fáránlegt. Maður er orðinn stressaður yfir því hversu oft maður verður veikur á önninni,” segir Dagný en krakkarnir lýsa kerfinu á þá vegu að ef nemandi er veikur tvo daga í röð fái hann einungis annan daginn skráðan sem veikindi. Restin verði að fjarvistum. „Þú þarft að vera fjarverandi í þrjá daga til að fá þennan helming til baka sem gefur þér í rauninni ástæðu fyrir því, ef þú ert veikur í tvo daga, að vera heima þriðja daginn líka. Nú þekki ég fólk sem náði öllum prófum, kláraði öll verkefni en það var fellt í náminu vegna of margra fjarvista. Þessu þarf að breyta,” bætir Júlíus við.
„Það er val að fara í framhaldsskóla. Mér finnst við klárlega eiga að fá meira svigrúm varðandi mætingu. Það er á okkar ábyrgð að sinna náminu og okkur ætti að vera treyst til þess,” segir Karín.
-Sólborg Guðbrands