Suður með sjó: Blessun að varnarliðið fór
Hilmar Þór Hilmarsson prófessor og hagfræðingur er gestur Suður með sjó að þessu sinni
„Það var ákveðin blessun að Varnarliðið fór frá Íslandi árið 2006 þegar málin eru skoðuð eftirá, þó svo að það hafi verið mikið áfall á þeim tíma. Það er miklu betra og heilbrigðara að lifa á eigin þjónustu og starfsemi en að þurfa að sækja peninga til Bandaríkjanna. Við erum að standa okkur vel í ferðaþjónustunni sem á bjarta framtíð fyrir sér á Suðurnesjum og landinu öllu,“ segir Njarðvíkingurinn Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor og hagfræðingur í Suður með sjó.
Hilmar Þór segir m.a. frá því í viðtalinu þegar hann tók þátt í starfi kostnaðarlækkunarnefndar Varnarliðsins en Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, kallaði hann heim til þeirra starfa frá Alþjóðabankanum og Hilmar var formaður hennar. Hilmar segir að Bandaríkjamenn hafi verið farnir að hugsa sér til hreyfings frá Keflavíkurflugvelli rúmum áratug áður en þeir fóru endanlega með manni og mús árið 2006. Hilmar segir að það hafi verið stöðug togstreita við Bandaríkjamenn þann tíma því það voru miklir hagsmunir undir hjá Íslendingum og ekki síst Suðurnesjamönnum en mikill fjöldi þeirra vann á Vellinum.
Hilmar Þór er alinn upp í Njarðvík og sótti Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þaðan lá leið hans í Háskóla Íslands til að nema hagfræði en á þeim árum starfaði Hilmar Þór líka fyrir Kaupfélag Suðurnesja og tengdist starfi Framsóknarflokksins. Var hann m.a. aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, í fjögur ár. Hann lauk doktorsprófi í Bandaríkjunum og starfaði hjá Alþjóðabankanum í tólf ár og hefur á ferli sínum síðan unnið fyrir hann í þremur heimsálfum og tók þá m.a. þátt í mjög merkilegu uppbyggingarstarfi í löndum eins og Lettlandi, Mósambik og Víetnam.
Hilmar Þór hefur gefið út þrjár bækur en sú nýjasta fjallar um viðbrögð Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við kreppunni sem skall á 2008 og árangur af mismunandi efnahagsstefnum. „Á Íslandi féll gengið og bankarnir hrundu. Ef við skoðum árangur stefnunnar á Íslandi er hann mun betri. Mikill hagvöxtur, lítið atvinnuleysi og aukið svigrúm til útgjalda til velferðarmála“ segir Hilmar sem hefur verið gestafyrirlesari í mörgum af þekktustu háskólum í heimi en hann starfar nú sem prófessor við Háskólann á Akureyri.