Suðupottur fyrir fuglaflensur við Íslandsstrendur
Fuglaflensuvírusar frá Ameríku og Evrópu blandast saman á Íslandi. Þekkingarsetur Suðurnesja og Náttúrustofa suðvesturlands, sem hafa aðsetur í Suðurnesjabæ, hafa í samstarfi við bandaríska stofnun, sem sérhæfir sig í þessum málum, komist að þessari niðurstöðu. Fuglaflensa hefur frá því snemma á síðasta ári lagst þungt t.a.m. á súlustofninn við Íslandsstrendur.
„Það voru gerðar kannanir á súlunni í Eldey og það voru ekki fallegar myndir sem komu þaðan. Súlunni almennt í Atlantshafi gekk illa og fékk þungt högg. Við vorum að sjá fullorðna einstaklinga sem voru að hríðfalla. Þetta var ekki bara ungviði. Kollegar mínir, sem ég vinn mikið með, og voru að fara í eyjar í Skotlandi, Kanada og Noregi höfðu allir sömu sögu að segja. Það virðist sem fuglaflensan herji á þá fugla sem eru í miklum þéttleika eins og súlan var á þessum tíma. Þær virðast vera að lenda illa í því,“ segir Sölvi Rúnar Vignisson, fuglafræðingur, í viðtali við Suðurnesjamagasín í síðustu viku.
„Við hér hjá Þekkingarsetrinu og Náttúrustofunni, sem er í sama húsi, stúteruðum fuglaflensuna og hvernig hún dreifir sér um heiminn í samstarfi við bandaríska stofnun, sem er ein sú stærsta sem sér um þessa hluti. Í samstarfi við þá komumst við að því að evrópskir vírusar og amerískir vírusar í þessum fuglum eru að hittast á Íslandi og blandast þar. Menn hafa hingað til verið að horfa á Kyrrahafið og Kyrrahafsleiðina í gegnum Rússland en í raun er suðupotturinn hér. Hér erum við með tegundir sem verpa í Kanada eða færast á milli. Svo erum við með hanana okkar sem fara inn í Kyrrahafið með vetursetu þar, svo þetta er svolítill hrærigrautur hér og þessir vírusar eru að hittast hérna.“