Föstudagur 14. október 2011 kl. 13:39

„Stefnum að því að fella spárnar“ segir Friðrik Ragnarsson

Friðrik Ragnasson, annar af þjálfurum karlaliðs Njarðvíkinga er vongóður um að unglingarnir hans í Njarðvík nái að spjara sig þokkalega á komandi tímabili. Stefnan er sett á úrslitakeppnina en Njarðvíkingum var spáð falli af formönnum, þjálfurum og leikmönnum Iceland Express-deildarinnar fyrr í vikunni. Víkurfréttir ræddu stuttlega við Friðrik Ragnasson fyrir skömmu eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Í kvöld hefja Njarðvíkingar leik þegar þeir heimsækja Valsmenn að Hlíðarenda klukkan 19:15.

Verða Njarðvíkingar í botnbaráttu í vetur?
„Við verðum í einhverri baráttu en ég vona að við verðum kannski ekki alveg í þeirri baráttu. Við höfum sett markið hærra en þetta er í sjálfu sér ekkert óeðlileg spá, við erum með gjörbreytt lið þar sem meðalaldurinn er í kringum19 árin, þannig að það væri kannski óeðlilegt ef okkur væri spáð góðu gengi. Við stefnum þó á að fella þessa spá.“

En hvað telur Friðrik raunhæft sæti í deildinni?
„Svona 6.-8. sæti væri raunhæft fyrir okkur. Við værum nokkuð kátir með það, við ætlum að reyna að stefna inn í úrslitakeppnina, það er okkar markmið,“ segir Friðrik sem mun hafa úr mikið af ungum leikmönnum að moða í vetur. „Þeir verða tilbúnari með hverjum leik en þeir fæðast ekkert fullmótaðir í þetta en við erum búnir að æfa vel í sumar og höfum bullandi trú á verkefninu. Þetta eru strákar sem eru búnir að gera það mjög gott hjá yngri flokkum félagsins og við trúum því að þetta muni virka. Við erum búnir að æfa alveg hrikalega stíft, eða allt að 7-8 sinnum í viku í allt sumar. Við litum á það sem einu leiðina í stöðunni því að við vorum með það breytt lið og ekki mikinn pening á milli handanna. Það var svo ákveðið að taka tvo Kana til að styrkja liðið og við trúum því að þessi mikla vinna muni skila sér.“

Friðrik segist vera ánægður með erlendu leikmennina enn sem komið er. „Þegar Echols spilaði með KR á sínum tíma var hann hörku duglegur en við vissum það að hann er að koma aftur til Íslands eftir erfið meiðsli sem hann hlaut á Spáni fyrir tveimur árum þar sem hann ökklabraut sig. Hann er því að ná sér af erfiðum meiðslum og kemur hingað til að lengja ferilinn, en ef við fáum eitthvað frá honum í líkingu við það sem hann sýndi hér árið 2005 þá erum við í góðum málum.“