Stærsta fiskiskipið í Suðurnesjaflotanum
– Sjónvarp Víkurfrétta skoðaði Hrafn Sveinbjarnarson GK
Hrafn Sveinbjarnarson GK hélt til veiða á sunnudag í fyrsta skipti eftir umfangsmiklar breytingar á skipinu. Skipið er í dag stærsta fiskiskip í flota Suðurnesjamanna og flaggskipið í útgerðinni hjá Þorbirni hf. í Grindavík. Þorbjörn gerir í dag út fjögur línuskip og tvo frystitogara. Hrafn Sveinbjarnarson GK hefur farið í gegnum gagngerar endurbætur. Skipið var lengt úr 47,90 metrum í 63,3 metra hjá skipasmíðastöð í Póllandi. Skipið kom svo til Grindavíkur í haust og hefur síðustu vikur verið unnið að frágangi á skipinu við bryggju í Grindavík.
„Við ákváðum snemma á þessu ári að fara í gagngerar breytingar á fyrirkomulagi útgerðarinnar og á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK. Við ákváðum að setja einn af þremur frystitogurum á söluskrá og setja annan í lengingu til Póllands, sem hafði staðið lengi til,“ segir Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri hjá Þorbirni hf. í samtali við Víkurfréttir. Innslag Sjónvarps Víkurfrétta er í meðfylgjandi myndskeiði.