Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 26. september 2023 kl. 17:56

Sportspjall: Gaman að koma heim af æfingum

Arnór Ingvi Traustason gekk til liðs við sænska félagið Norrköping frá Keflavík 2014 og varð Svíþjóðarmeistari með liðinu 2015. Hann lék svo með Rapid Vín, AEK Aþenu og Malmö áður en hann gekk í raðir bandaríska félagsins New England Revolution fyrir tveimur og hálfu ári síðan.

Arnóri tókst ekki að fóta sig almennilega í bandarísku deildinni og gekk aftur til liðs við Norrköping þar sem hann hefur fundið sitt gamla form á fótboltavellinum. Arnór hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu í ár og í síðasta mánuði var hann valinn leikmaður mánaðarins í sænsku úrvalsdeildinni.

„Í ágústmánuði unnum marga leiki og ef liðinu gengur vel þá standa einstaklingarnir upp úr líka – og í ágústmánuði fékk það að vera ég,“ segir Arnór hógvær um að hafa verið valinn leikmaður mánaðarins í sænsku úrvalsdeildinni.

Fjölskyldunni líður vel í Svíþjóð

„Ég hef það nokkuð gott, mér og fjölskyldunni líður vel hérna í Svíþjóð. Liðinu hefur gengið vel, þótt það hafi gengið smá brösuglega í síðustu leikjum, en mér persónulega hefur gengið vel.“

Þið eru í sjötta sæti sem stendur [Norrköping hefur færst niður í sjöunda sæti eftir að viðtalið var tekið] en þið ætlið ykkur hærra, er það ekki?

„Jú, alveg klárlega. Við ætluðum okkur að gera betur en í fyrra, það var markmiðið þar sem við enduðum ekki ofarlega á síðasta ári – áttum alls ekki gott tímabil í fyrra. Við þurftum að setjast aftur niður og ræða málið því að okkur gekk svo vel og vorum komnir í fjórða sætið. Hvernig við ætluðum að útfæra restina af tímabilinu, sem hefur ekki gengið nógu vel. Við höfum tapað síðustu þremur leikjum og þurfum að finna leiðina til baka.“

Þér hefur verið að ganga ágætlega, þú varst t.d. valinn leikmaður ágústmánaðar í sænsku úrvalsdeildinni. Það er ágætis afrek.

„Já, það er það. Eins og ég sagði þá hefur mér persónulega gengið mjög vel og liðinu líka. Í ágústmánuði unnum við marga leiki og ef liðinu gengur vel þá standa einstaklingarnir upp úr líka – og í ágústmánuði fékk það að vera ég. Mér líður mjög vel, er með gott sjálfstraust og reyni að sýna það í mínum leik.“

Það skilar sér í landsliðssæti. Þú ert búinn að vera fastamaður í landsliðinu í síðustu leikjum.

„Já og ég er mjög ánægður með að fá tækifæri og byrja í síðustu leikjum með landsliðinu – og standa mig ágætlega, finnst mér. Við erum búnir að vera óheppnir með úrslit vil ég meina. Við höfum átt þrjá góða leiki af fjórum og bara unnið einn af þeim – en mér finnst við vera á réttri vegferð.“

Arnór í leik með íslenska landsliðinu gegn Portúgal. Hann er ánægður með að hafa fengið tækifæri með landsliðinu á nýjan leik og vill meina að Ísland hafi verið óheppið með úrslit í síðustu leikjum. „Við höfum átt þrjá góða leiki af fjórum og bara unnið einn af þeim.“ Mynd/Fotbolti.net


Tíu ár í atvinnumennsku

Nú er þinn atvinnumannaferill að nálgast tíu ár.

„Já, þú segir nokkuð. Ég var ekki búinn að spá í það,“ segir Arnór.

Já, þetta er fljótt að líða. Hvað finnst þér standa upp úr á þínum ferli?

„Nú tölum við eins og ferillinn sé að enda – sem hann er alls ekki að fara að gera. Nei, það sem stendur helst upp úr með landsliðinu er Evrópumótið og heimsmeistaramótið. Það eru titlarnir, titillinn hér með Norrköping og Evrópuævintýrið með Malmö,“ segir Arnór en hann varð sænskur meistari með Norrköping árið 2015 og með Malmö árið 2018. Með Malmö komst Arnór í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar árið 2019 þar sem Malmö mætti enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea. Chelsea reyndist of stór biti fyrir þá sænsku og vann leikina tvo samanlagt 5:1.

Hvernig kunnir þú við þig í Bandaríkjunum?

„Bandaríkin voru kannski ekki alveg eins og ég var að vonast eftir en það var mjög gaman að prófa þetta. Þegar tækifærið gafst ákvað ég að stökkva á það en það gekk ekki nægilega vel og ég þurfti að taka skref til baka og byggja mig aftur upp, sem ég er að gera núna.

Bandaríkin, það var skemmtilegt. Aðeins öðruvísi, öðruvísi fótbolti, öðruvísi menning, öðruvísi nálgun á íþróttina. Sem er kannski ekki fyrir alla, þú þarft að venjast mismunandi hlutum þarna – en mjög skemmtileg og opin deild. Okkur fjölskyldunni fannst mjög gaman að búa í Bandaríkjunum, okkur leið mjög vel í Boston. Þetta var ágætis lífsreynsla.“

Bandarískar borgir gerast kannski ekki mikið evrópskari en Boston.

„Nákvæmlega, svo þekktum við líka Íslendinga sem bjuggu þarna fyrir og búa þar enn. Það hjálpaði dálítið.“

Arnór er kominn aftur til Svíþjóðar og segist líða mjög vel þar. „Ég þurfti aðeins að líta í baksýnisspegilinn og sjá hvað ég vildi gera með minn feril. Ég ákvað að koma aftur hingað þar sem ég veit að hverju ég geng og það hefur sýnt sig og sannað í minni spilamennsku að ef mér líður vel utan vallar þá stend ég mig vel innan vallar líka. Mér líður vel í Norrköping og veit að hverju ég geng – en ég er hvergi nærri hættur og stefnan er sett eitthvað hærra. Mig langar hærra og langar út til Evrópu í einhver ævintýri.“

Í hvaða deild dreymir knattspyrnumanninn Arnór Ingva um að spila?

„Ég væri alveg til í að prófa eitthvað í Mið-Evrópu, bara fá að vera á meginlandinu og prófa að spila í einhverri stærri og meira krefjandi deild. Akkúrat núna finnst mér ég vera tilbúinn í það en það getur allt gerst í þessu. Eins og ég segi, mig langar aftur á meginlandið og fá að sýna mig og sanna þar.“

Hlutirnir eru fljótir að breytast í fótboltanum, hefurðu fundið fyrir einhverjum áhuga annarra liða?

„Nei, ekkert þannig. Það er ekkert verið að tala neitt sérstaklega við mig en maður er búinn að vera í þessu í nokkur ár og veit út á hvað þetta gengur. Þannig að ef maður stendur sig vel hérna þá er alltaf einhver áhugi einhversstaðar. Það eru allar dyr opnar en aftur á móti líður okkur mjög vel hérna. Hins vegar er hugur fótboltamannsins; maður vill alltaf lengra. Það er hungrið sem fleytir manni áfram, það er ekki gott að missa það.“

Fjölskyldan í Svíþjóð. Arór Ingvi og Andrea Röfn ásam börnum sínum og foreldrum Arnórs, Trausta Má Hafsteinssyni og Unu Kristínu Stefánsdóttur.

Gaman að koma heim af æfingum

Arnór og Andrea Röfn Jónasdóttir, unnusta hans, eiga saman tvö börn; Aþenu Röfn, fjögurra ára, og Arnór Rafael, eins árs, og Arnór segir að það sé gaman að koma heim af æfingum.

„Maður er úti að leika, þetta er svo krefjandi og samt svo gefandi. Maður getur komið heim og kúplað sig út úr því sem maður er að gera í fótboltanum. Maður er pirraður hér og svo kemur maður heim og er strax orðinn glaður. Þetta hjálpar mér mjög mikið.“

Þér tekst að skilja vinnuna eftir í vinnunni.

„Já, svona í níutíu prósent tilvika. Það er oft sem ég kem svolítið pirraður heim en það er fljótt að breytast þegar maður sér börnin, annað er ekki hægt.“

Hvernig er dagurinn hjá þér? Þið byrjið snemma á morgnana en ertu svo með lausan fjölskyldutíma seinni partinn og á kvöldin?

„Já, það er yfirleitt þannig að á tímabilinu æfum við á morgnana og erum búnir rétt eftir hádegi. Borðum hádegismat saman og svo fer ég heim og næ í dótturina á leikskólann. Svo er bara leikið, koma þeim í svefninn og eitthvað kósí á kvöldin. Ég reyni líka að spila eins mikið golf og ég get. Ég er með 8,6 í forgjöf eins og er.“

Þannig að þú hefur að eitthverju að snúa þegar ferillinn er búinn.

„Já, alveg klárlega. Þetta er svo gefandi og hreinsar hausinn svo mikið þegar maður fær að vera úti og njóta þess. Hugsa um eitthvað allt annað. Mér finnst þetta geðveikt sport.“

Arnór var að detta inn á liðsfund en Norrköping átti að mæta Brommapojkarna daginn eftir. Mikilvægur leikur fyrir bæði lið sem höfðu bæði tapað þremur leikjum í röð.

„Þeir eru í smá ströggli eins og við. Þetta verður krefjandi leikur, það er mjög erfitt að fara til Stokkhólms en þeir spila á mjög hröðu gervigrasi og við þurfum að gefa okkur alla í að vinna þennan leik,“ sagði Arnór að lokum  en leikur liðanna endaði með jafntefli. Framan af leit þetta vel út hjá Norrköping sem náði tveggja marka forystu í fyrri hálfleik en BP jafnaði með tveimur mörkum í þeim seinni. Norrköping er sem stendur í sjöunda sæti í sænsku úrvalsdeildinni þegar sex umferðir eru eftir af deildinni.