Sporna gegn matarsóun
og auka virðingu neytenda fyrir hráefnum
Lyst á breytingum er yfirskrift sýningar nemenda við keramikbraut Myndlistaskólans í Reykjavík. Sýningin er hluti af dagskrá HönnunarMars 2020 og verður á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur dagana 24.-28. júní. Þrjár konur sem þar munu sýna verk sín eru með tengingu við Suðurnesin.
Keflavíkurmærin Svanbjörg Helena Jónsdóttir er með B.A. gráðu frá Háskóla Íslands og sagði skilið við flott bankastarf og fór í diplóamanám á keramikbraut Myndlistarskólans í Reykjavík. Hún er að útskrifast núna. Tvær vinkonur hennar og nemendur í skólanum eru þær Melkorka Matthíasdóttir og Aldís Yngvadóttir. Þær eru að ljúka fyrra ári sínu en eins og Svanbjörg ákváðu þær að elta listagyðjuna. Víkurfréttir hittu þær stöllur í sumarhúsi Aldísar í Höfnum á Reykjanesi og spurðu þær út í listina og verkin sem þær sýna á HönnunarMars.
Við gerð verkanna sem verða á sýningunni var lagt út frá því hvernig mætti sporna gegn matarsóun og auka virðingu neytenda fyrir hráefnum. Útkoman var einkar áhugaverð og til urðu vörur úr postulíni sem henta til matreiðslu, varðveislu og framreiðslu á matvælum.
Við lifum á tímum þar sem við verðum að hugsa um neyslu og það sem við framleiðum í hnattrænu samhengi. Hvernig getum við þróað nýjar hugmyndir sem ýta undir skilning á stöðu mála? Hugmyndir sem sporna gegn matarsóun og auka virðingu neytenda fyrir hráefnum, auðvelda okkur að nýta og varðveita hráefni og dýpka upplifun af neyslu fæðunnar. Með þetta að leiðarljósi þróuðu nemendur við keramikbraut Myndlistaskólans í Reykjavík vörur steyptar úr postulíni þar sem útgangspunkturinn var fæða og sjálfbærni.
Verkin á sýningunni voru unnin í áfanganum Hönnun og framleiðsla. Nemendur þróuðu vörur út frá þema verkefnisins, gerðu frummót og steypumót úr gifsi og helltu í þau fljótandi postulínsmassa. Frágangur, glerjun og brennsla var einnig hluti af framleiðsluferlinu.
Nemendur leituðu víða fanga í rannsókna- og hugmyndavinnu og fóru fjölbreyttar leiðir við að tengja nálgun sína við mat, matarhefðir og sjálfbærni. Á meðal þess sem þeir beindu sjónum að var krydd, kjöt, fiskur, skyr, hunang, jurtir og ís. Til urðu vörur úr postulíni sem henta til matreiðslu, varðveislu og framreiðslu á matvælum. Hneita, Innvols, Tilraunate, Varðveitt og Sjávarfatið eru dæmi um heiti á þeim vörum sem nemendur hönnuðu og framleiddu, segir í kynningu frá skólanum.
Opnun sýningarinnar verður miðvikudaginn 24. júní kl. 17–20. Aðrir opnunartímar eru: Fim. 25/6: kl. 11–18, fös. 26/6: kl. 11–18, lau. 27/6: kl. 11–18, sun. 28/6: kl. 11–18.
Hægt verður að fylgjast með vinnuferli við postulínssteypu meðan á sýningunni stendur.