Miðvikudagur 4. janúar 2012 kl. 09:30

Soðið hús og tugmilljóna tjón

Eigandi gömlu lögreglustöðvarinnar í Grænási í Reykjanesbæ telur að tugmilljóna tjón hafi orðið á húsinu eftir að heitt vatn hafi lekið þar í nokkra daga. Vatnslekinn varð mönnum ljós í gærdag en þá voru allir innviðir hússins soðnir.

Á vef Vísis.is kom fram í gær að tjónið væri allt að 50 milljónum króna og að byggingin hafi verið ótryggð. Meðfylgjandi myndskeið var tekið upp í gær þegar starfsmenn Brunavarna Suðurnesja unnu að því að hreinsa upp vatn í húsinu.

Gufustrókar stóðu upp af byggingunni og seint í gærkvöldi mátti enn sjá heitavatnsgufur leggja frá húsinu, enda húsið orðið gegnsósa af vatni og hitinn þar var mikill.