Smjörsteiktur makríll úr Keflavíkurhöfn - video
Nú þegar tonnum af makríl hefur verið mokað upp úr Keflavíkurhöfn og allar frystikistur svæðisins eru að fyllast af þessu hráefni, er ekki úr vegi að kanna hvernig matreiða megi makrílinn á sem einfaldastan hátt.
Sveinbjörn Karvelsson, matreiðslumeistari á veitingastaðnum Vocal á Flughóteli í Keflavík, matreiddi makríl í hádeginu fyrir Víkurfréttir.
Sveinbjörn flakaði makrílinn og beinhreinsaði. Þá skar hann í roðið, því það dregst saman við steikinguna.
Það sem Sveinbjörn bauð Víkurfréttum uppá í hádeginu var smjörsteiktur makríll með smjörsteiktum kartöflum og mjólkursoðnu blómkáli. Með makrílnum var svo heit sinnepssósa.
Sveinbjörn leggur mikla áherslu á að hráefnið sé ferskt og verði að matreiða innan sólarhrings frá því það hafi verið veitt. Kæling fyrir matreiðslu skiptir máli en þar sem makríllinn er feitur fiskur er hætta á að lýsisbragð komi af fisknum eftir geymslu.
Makríllinn þarf ekki mikla steikingu, hámark eina og hálfa mínútu á hvorri hlið. Ágætt er að byrja á því að steikja flökin á roðinu og snúa þeim svo við.
Með makrílnum gerði Sveinbjörn svo sinnepssósu en meðfylgjandi myndband ætti að sýna hversu einfalt það er í raun að matreiða makríl og meðlæti.
Video: Hilmar Bragi Bárðarson