Miðvikudagur 17. ágúst 2011 kl. 11:05

Slegið inn á frægustu golfholu landsins úr trillu á sjó

Ævar Finnsson, kylfingur í Golfklúbbi Suðurnesja vildi prófa að leika frægustu golfholu Íslands, 3. brautina, Bergvíkina í Leiru, frá nýjum upphafsteig. Ekki frá landi heldur frá sjó. „Mig hafði dreymt um þetta lengi,“ sagði Ævar.

Í rjómablíðunni nýlega lét Ævar þessa hugmynd verða að veruleika með hjálp vinar síns, Þórhalls Ingasonar, eiganda trillunnar Lilla. Þeir tóku með sér veglega grastorfu og tréplötu, slatta af golfboltum og kylfur og héldu út í Bergvík. Ný skyldi ekki slegið frá hefðbundnum upphafsteig sem þykir á flottum stað og fær marga kylfinga til að kikna í hnjánum, heldur úr lítilli trillu um 70 metra úti í sjónum í Bergvíkinni. Ævar sló síðan úr Lilla nokkra bolta og margir lentu á 3. flötinni en einhverjir náðu ekki yfir og enduðu í blautri Bergvíkinni en boltinn þurfti að fljúga yfir veglegan grjótvarnargarðinn sem liggur meðfram brautinni. Það var gaman að fylgjast með Ævari sem sýndi hæfni sína í golfi á nýjan hátt. Jafnvægi þurfti til að framkvæma höggið svo vel gengi og það gerði Ævar sem starfar sem múrari í Reykjanesbæ. „Þetta var mjög skemmtilegt og spurning hvort Golfklúbbur Suðurnesja færi upphafsteiginn þarna út í,“ sagði Ævar og hló.

Meðfylgjandi má sjá skemmtilegar myndir og video frá uppátæki Ævars.

-

-

-