Skýr skilaboð bæjarbúa til ríkisstjórnarinnar
„Þetta er alveg stórkostlegt og mikilvægt að finna þetta þegar hálf ríkisstjórnin hefur verið að berja á okkur hérna,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, á kosninganótt í viðtali við Víkurfréttir, aðspurður um viðbrögð við úrslitum í bæjarstjórnarkosningunum.
„Ég held að menn sjái það að hérna snýst pólitíkin ekki um flokkadrætti, hún snýst ekkert um það að vera með flottustu lýsingarorðin. Hér eru menn að vinna eftir skilgreindum markmiðum og við erum að skila árangri og þetta held ég að séu stjórnmál framtíðarinnar og það er það sem við stefnum á,“ sagði Árni einnig.
-Áttir þú von á þessum úrslitum?
„Ég taldi að við værum að verja okkur miðað við þær árásir sem höfðu dunið yfir og við værum að berjast hér við að halda meirihluta. Að halda svona sterkum meirihluta er gríðarlega ánægjulegt. Ég er bara sannfærður um það að íbúar Reykjanesbæjar láta ekki vaða svona yfir sig eins og árásirnar hafa verið og menn standa saman. Ég fann fyrir þessum sterka stuðningi og samheldni íbúanna hér. Þetta snýst ekki um flokkadrætti. Við erum að vinna hér fyrir alla íbúana og það er það sem íbúarnir vita og þess vegna standa þeir með okkur“.
Aðspurður um hvaða skilaboð þessi úrslit í Reykjanesbæ væri, sagði Árni m.a.:„Ég er sannfærður um það að þetta eru mjög skýr skilaboð bæjarbúa til stjórnvalda. Við viljum vinnu. Við viljum vel launuð störf og þið eigið að standa með okkur,“ sagði Árni og beindi orðum sínum til ríkisstjórnarinnar.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan í Sjónvarpi Víkurfrétta.