Föstudagur 6. maí 2011 kl. 00:51

Skútan kom í heilu lagi upp en brotnaði og sökk að nýju

Skútan Silver, sem fórst út af Faxaflóa seint í ágúst 2004 kom óvænt í trollið hjá Oddgeiri EA 600 síðdegis á miðvikudag þegar skipið var að veiðum um 25 sjómílur SV- af Malarrifi á Snæfellsnesi. Skútan var á sínum tíma á leiðinni frá Kanada til Noregs. Tveir menn voru á skútunni þegar hún fórst. Þyrla Landhelgisgæslunnar náði til mannanna en aðeins annar þeirra lifði slysið af. Sá var 17 ára gamall en 49 ára föðurbróðir hans lést.

Flakið af skútunni kom upp með trollinu í nær heilu lagi en brotnaði svo og sökk aftur í sæ. Óhemju vinna var fyrir áhöfn Oddgeirs að losa brak úr trollinu og var komið með brakið til Grindavíkur í gærkvöldi, fimmtudagskvöld. Einnig komu fjölmargir persónulegir munir í trollið en þar var myndamappa örugglega merkilegasti hluturinn.

Eftir sjö ár í sjó voru fjölmargar myndir mjög greinilegar og hafa varðveist vel.

Lögreglan á Suðurnesjum tók við mununum úr skútunni en þeim verður komið til rannsóknarnefndar sjóslysa og þá er vonast til þess að myndirnar sem komu upp komist til réttra eigenda.



Persónulegir munir komu upp með skútunni eins og t.d. þessar myndir.





Myndirnar voru óskýrar þegar þær komu upp en eftir að hafa verið settar í ferskvatnsbað þá urðu þær mjög greinilegar.






Oddgeir EA kemur inn til Grindavíkur í gærkvöldi.




Brak úr skútunni Silver.