Mánudagur 12. september 2016 kl. 06:00

„Sköpunargleðin örvar fólk og veitir gleði“

- Fab Lab smiðja opnuð í Keili

Undirritaður var samningur um Fab Lab smiðju í Keili í vikunni. Smiðjan er samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Keilis. Markmiðið með starfsemi Fab Lab á Reykjanesi er að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum, auka tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Markmið verkefnisins er ennfremur að skapa vettvang fyrir nýsköpun og að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda á Reykjanesi. Smiðjur sem þegar eru í Keili munu renna inn í Fab Lab smiðjuna, svo sem Hakkit, Smiðjan og efnafræðistofan. Þá verður aðstaðan í Fjölbrautaskóla Suðurnesja notuð ef þörf krefur.

Að sögn Hjálmars Árnasonar, framkvæmdastjóra Keilis, er Fab Lab smiðjan góð viðbót við starfið í Keili. Hann bendir á að nemendur í 7. og 8. bekk í Háaleitisskóla á Ásbrú geti nú tekið nýsköpun sem valgrein og segir gaman að sjá af myndum úr starfinu hve skemmtilegt þeim þyki. „Það er einmitt tilgangurinn, að örva tækni- og nýsköpunarhugsun og áhuga meðal skólafólks og almennings. Það er það sem atvinnulífið kallar eftir og nú er verið að svara því,“ segir Hjálmar. Hakkit smiðjan í Keili hefur verið opin í nokkrar klukkustundir á viku fyrir almenning og er hópur fólks sem alltaf mætir og fær útrás fyrir sköpunarkraft sinn. „Fólk hefur búið til ýmsa nytjahluti og skrautmuni. Það er virkilega gaman að sjá hvernig sköpunargleðin örvar fólk og veitir því gleði.“

Nemendum í 7. og 8. bekk Háaleitisskóla á Asbrú stendur nú til boða að taka valfag í nýsköpun í samvinnu við Keili. Myndin er tekin í slíkri kennslustund.

Í Fab Lab smiðjum eru kennd undirstöðuatriði stafrænnar framleiðslutækni; frá þrívíddarhönnun, til framleiðslu hluta og forritunar með hjálp tölvustýrðra tækja og tóla.  Í Fab Lab smiðjunni í Keili verður allra handa tækjabúnaður, til dæmis stór fræsivél til að búa til stóra hluti úr tré og plasti, lítil fræsivél til að fræsa rafrásir eða í þrívídd til mótagerðar, þrívíddarprentari, laserskerar til að skera út hluti í til dæmis pappa, plexígler, MDF eða við og merkja í gler, svo dæmi séu tekin. Þá verður í smiðjunni vinylskeri til að skera út límmiðafilmur og koparfilmur til að gera sveigjanlegar rafrásir. Í smiðjunni verður einnig rafeindabúnaður, sem hægt er að lóða á rafrásabrettin og forrita ásamt ýmsum gerðum af skynjurum. Þá verður einnig þrívíddarskanni og fjöldi tölva, hlaðinn opnum og frjálsum hugbúnaði til þess að hanna og búa til nánast hvað sem er.

Fab Lab Reykjanes er hluti samstarfsnets Fab Lab smiðja á Íslandi. Fab Lab Reykjanes tengist jafnframt alþjóðaneti Fab Lab smiðja, Fab Foundation sem Nýsköpunarmiðstöð er aðili að.