Skjaldarmerki Danakonungs komið á Reykjanesvita
Skjöldur með afsteypu af skjaldarmerki tveggja Danakonunga var afhjúpaður á Reykjanesvita á Ljósanæturhátíðinni í Reykjanesbæ. Það gustaði svolítið við afhjúpunina en hún var framkvæmd af Arnbirni Ólafssyni, nafna fyrsta vitavarðarins og langalangaafabarni. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var viðstaddur afhjúpunina. Eftir afhjúpunina gekk forsetinn upp í vitann og virti fyrir sér útsýnið yfir Reykjanes og nágrenni.
„Ég er ánægður að þetta verkefni sé búið. Þetta var talsvert verk og smá vesen eins og gengur. Skjaldarmerkið var gert á Þingeyri og við erum mjög ánægðir með það og það er prýði á vitanum,“ sagði Hallur en samtökin ætla að snúa sér að næstu verkefnum.
Hollvinasamtökin vitans hafa áhuga á að nýta húsnæði neðan vitans sem m.a. hýsir ljósavél og vilja koma þar upp sýningu sem tengist vitanum.
Frá vígslu Reykjanesvita hinn 20. mars 1908 og fram til um 1970, eða í rúm 60 ár, skartaði Reykjanesviti skjaldarmerki Danakonungs. Merkið þótti á sínum tíma mikilvæg viðurkenning konungs á mannvirkinu en Kristján IX var konungur Danmerkur 1863–1906. Þegar vitinn var vígður hafði sonur Kristjáns, Friðrik VIII, tekið við stjórnartaumum í Danmörku og var þá skjaldarmerki hans sett yfir það fyrra.
Danski skjöldurinn var upprunalega settur á elsta vita Íslands, á Valahnjúki á Reykjanesi, en sá viti var reistur 1. desember 1878 þegar Kristján IX var konungur Danaveldis. Hollvinafélagið fékk síðastliðið haust styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja að upphæð 1.000.000 kr. til þess að koma endurgera og koma svokölluðu konungsmerki aftur upp á vitann.
Fyrsti vitavörður var Arnbjörn Ólafsson og hafði hann kynnt sér vitavarðarstarfið í Danmörku. Á árunum 1907–1908 var reistur nýr viti á Bæjarfelli og var fyrst kveikt á honum 10. mars 1908. Þá var konungur Friðrik VIII. Danska konungsmerkið var þá fært af gamla vitanum yfir á þann nýja. Fangamark Friðriks VIII var þá sett yfir fangamark föður hans Kristjáns IX og nýtt ártal MCMVIII (1908).
Arnbjörn og Hallur voru í baráttu við veðurguðina sem blésu hressilega þannig að dúkurinn flæktist aðeins við merkið við afhjúpunina en þetta hafðist að lokum.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, óskar Halli Gunnarssyni til hamingju eftir afhjúpunina. Aðrir á myndinni eru Arnbjörn Ólafsson sem afhjúpaði merkið, Jóhann F. Friðriksson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri og formaður Reykjaness Jarðsvangs.
Forsetinn vildi auðvitað rétta hjálparhönd þegar afhjúpun var lokið. Einhver viðstaddur sem ekki þekkti til forsetans spurði: „Hver er þetta þarna með þeim?“
Kjaran Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar flutti tölu áður en afhjúpun fór fram. VF-myndir/pket/hilmarbragi.