Skálað í vatni fyrir nýju varavatnsbóli
„Þetta gekk alveg ótrúlega vel með sameiginlegu átaki margra aðila. Ljóst er að verði neysluvatnslaust vegna náttúruhamfara yrðu afleiðingarnar neyðarástand þar sem neysluvatn er grunn forsenda þess að hægt sé að halda uppi búsetu og atvinnustarfsemi á svæðinu. Því er mikilvægt að tryggja svæðinu öruggt aðgengi að neysluvatni,“ sagði Páll Erland, forstjóri HS Veitna en varavatnsból fyrir neysluvatn við Árnarétt í Garði í Suðurnesjabæ er nú tilbúið.
Í tengslum við jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi og möguleg áhrif þeirra á vatnsbólið að Lágum við Svartsengi, sem sér bæði Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ fyrir neysluvatni, hafa HS Veitur unnið að því í samvinnu við Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og stjórnvöld að gera ráðstafanir til þess að koma upp varavatnsbóli við Árnarétt í Garði sem nýst getur þeim 25 þúsund íbúum og fyrirtækjum sem þar eru.
Mætti fyrirtækið góðum skilningi frá stjórnsýslunni um flýtimeðferð á tilskyldum leyfum til að hefja borun og uppsetningu varavatnsbóls og hófust framkvæmdir þann 20. nóvember sl. og hafa fjölmargir verktakar unnið stanslaust að verkinu síðan þá. Áætlað er að kostnaður við varavatnsbólið nemi um 140 milljónum króna.