Fimmtudagur 30. október 2014 kl. 15:26

SjónvarpVF: Aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli

– og 85 milljónir frá Dósaseli til Suðurnesjamanna

Fjölbreyttur vikulegur þáttur Sjónvarps Víkurfrétta er orðinn aðgengilegur á netinu í 1080P myndgæðum. Þátturinn er númer 32 í seríu frétta- og mannlífsþátta sem Víkurfréttir vinna í samstarfi við sjónvarpsstöðina ÍNN en þátturinn er á dagskrá ÍNN á fimmtudagskvöldum kl. 21:30 og svo endursýndur á tveggja tíma fresti í sólarhring frá frumsýningu. Lokasýning á þættinum er föstudagskvöld kl. 19:30.

Í þættinum í þessari viku tökum við púlsinn á lífinu á Keflavíkurflugvelli og ræðum við Björn Óla Hauksson forstjóra Isavia um stöðuga aukningu í vetrartraffík um Keflavíkurflugvöll. Í sama innslagi er rætt við Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra ferðamála og einnig við Davíð Ásgeirsson flugstjóra hjá easyJet. Davíð er sonur Ásgeirs Eiríkssonar bæjarstjóra í Vogum.

Í þættinum í kvöld er einnig heimsókn Sjónvarps Víkurfrétta í Dósasel sem Þroskahjálp á Suðurnesjum rekur. Dósasel veitir tíu einstaklingum atvinnu og skilar 85 milljónum króna út í samfélagið á Suðurnesjum í formi skilagjalds fyrir drykkjarumbúðir.

Við erum einnig með innslag um nýja revíu Leikfélags Keflavíkur. Revían heitir Með ryk í auga og þar er svo sannarlega skotið föstum skotum á menn og málefni í samfélaginu á Suðurnesjum.

Þá tökum við létt dansspor með Páli Óskari í gamalli skotfærageymslu Varnarliðsins þar sem BRYN Ballett Akademían er nú með aðstöðu á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Við hjá Víkurfréttum erum opin fyrir ábendingum um áhugavert efni í þáttinn. Við hvetjum lesendur vf.is til að standa með okkur vaktina og benda okkur á áhugavert efni í þáttinn. Sendið línu á [email protected].