Sjónvarp: Vöxturinn á Keflavíkurflugvelli
Vöxtur í starfsemi Keflavíkurflugvallar hefur verið hraður síðustu ár og starfsemin tekið miklum breytingum síðan Varnarliðið fór með manni og mús fyrir rétt rúmum áratug síðan. Þessi vöxtur hefur haft gríðarleg áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum en flugstöðin er lang stærsti vinnustaðurinn á svæðinu og einn sá stærsti á landinu. Skömmu eftir brottför Varnarliðsins kom bankahrun en tveimur, þremur árum síðar fóru hlutirnir að þróast í betri átt, þökk sé áhuga útlendinga á landinu.
Fyrir rúmum áratug voru farþeg á Keflavíkurflugvelli innan við tvær milljónir á ári en verða í ár um tíu milljónir. Þegar sjónvarpsmenn Víkurfrétta voru á Keflavíkurflugvelli um miðja vikuna fóru 34.000 farþegar um flugstöðina þann daginn. Flugtök og lendingar voru 178 og fóru í allt að 215 í sumar en á slíkum degi fara um 42.000 farþegar um flugstöðina á einum sólarhring.
Það þarf fjöldan allan af starfsfólki til að starfrækja flugvöll allan sólarhringinn alla daga ársins og tækjabúnaðurinn er margskonar. Til dæmis eru 90 hjólastólar og allskonar farartæki á ferðinni til að auðvelda flutninga um Keflavíkurflugvöll en daglega berast 150 slíkar þjónustubeiðnir, um 50 þúsund á ári. Já, tölurnar eru stórar í flugstöðinni. Sem dæmi þá er dælt um tveimur milljónum lítra af eldsneyti á flugvélar á flugvellinum á hverjum degi en það rennur í leiðslum frá Helguvík upp á Keflavíkurflugvöll.
Við hittum Þröst V. Söring, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar og spyrjum hann aðeins út í þróunina en isavia rekur til dæmis björgunar-slökkviþjónustu og vetrarþjónustu sem var á tímum Varnarliðsins í höndum Bandaríkjamanna.