Sunnudagur 11. nóvember 2012 kl. 14:51

Sjónvarp: Vilja endurbyggja Fishershús

Neðst á Hafnargötunni í Keflavík stendur svokallað Fishershús. Það á sér langa sögu, var byggt árið 1881 og er því með elstu húsum bæjarins.  Húsið byggði kaupmaðurinn Waldemar Christopher Hartvig Fischer og var húsið kennt við hann. Duusverslun keypti húsið ásamt öðrum eignum Fischers upp úr aldamótunum 1900. Duus kaupmaður keypti um sama leyti allar eignir Fischers í Reykjavík og  verslaði á þessum tveimur stöðum.

Húsið hefur mikið varðveislugildi, bæði byggingarsögulega og ekki síður menningarsögulega. Fyrir nokkru kom þetta hús til umræðu á Facebook-síðunni Keflavík og Keflvíkingar. Margir lögðu orð í belg og allir voru sammála um að húsið þyrfti að endurbyggja í upprunalega mynd og það fengi þann virðulega svip sem einkenndi það áður.

Í framhaldinu var boðað til kynningarfundar og til varð hópur áhugafólks um málefnið. Hópurinn heitir Vinir Fishershúss.

Páll V. Bjarnason, arkitekt,  var upphafsmaður umræðunnar á Facebook en hann þekkir húsið vel og hefur ritað greinargerð ásamt kostnaðaráætlun um hugsanlega endurbyggingu þess.

Í sjónvarpi Víkurfrétta fer Ellert Grétarsson yfir sögu hússins, bregður upp gömlum ljósmyndum sem sýna hvernig það leit út í upphafi og ræðir við Pál V. Bjarnason um ástand þess og hugsanlega endurbyggingu.