Þriðjudagur 3. maí 2016 kl. 11:00

Sjónvarp Víkurfrétta: Hollusta hjá Höllu

Veitingastaðurinn Hjá Höllu í Grindavík býður upp á heilsusamlegan mat og hefur gott orðspor hans borist víða á stuttum tíma. Eigandi staðarins, hún Halla María Svansdóttir, hefur lengi haft brennandi áhuga á hollustu. „Eftir að ég eignaðist börnin mín fór ég mikið að hugsa um mataræði og hvað ég væri að gefa þeim að borða og vildi gera það vel.“ Halla rekur veitingastaðinn í Grindavík og sendir á hverjum virkjum degi um tvö hundruð matarsendingar til vinnustaða. Sjónvarp Víkurfrétta kíkti í heimsókn til Höllu á dögunum. Innslagið má sjá hér fyrir neðan.

Grindvíkingar hafa tekið hollustunni fagnandi og eru að sögn Höllu tíðir gestir á veitingastaðnum. „Hingað koma líka margir úr Reykjanesbæ og svo er fólk af höfuðborgarsvæðinu sem gerir sér ferðir hingað. Um daginn kom til okkar fólk frá Flúðum.“ Fjölmargir ferðamenn heimsækja Grindavík dag hvern og kíkja margir þeirra við hjá Höllu. „Ferðamenn hafa verið duglegir að gúggla og finna staðinn því við höfum ekki auglýst neitt.“