Sjónvarp VF: Var ekki alltaf bara heima að læra
– Nýútskrifaður dúx FS stefnir á nám erlendis með kærastanum eftir ár.
Átján ára Njarðvíkurmær, Guðlaug Björt Júlíusdóttir, dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja á vorönn 2015 segir að grundvöllur að góðum árangri sé að vera skipulögð, mæta vel og skila verkefnum á réttum tíma. Ekki sé nóg að vera gáfum gædd ef metnaðinn skortir. Hún ætlar að starfa sem stuðningsfulltrúi í Akurskóla næsta árið og spila körfubolta með Grindavík á meðan kærastinn hennar lýkur námi. Þá er stefnan tekin til útlanda í verkfræðinám. Víkurfréttir tóku Guðlaugu Björt tali og hún var spurð hvernig hún hefði eiginlega farið að þessu og hvort ekki sé um einhverjar ofurgáfur að ræða.
„Ég held að það sé bara mikill metnaður, skipuleggja sig vel, mæta í alla tíma og skila á réttum tíma. Það skiptir miklu máli. Ég held að ekki þurfi ofurgáfur til. Það geta þetta margir. Þetta snýst um að leggja mikið á sig og gera meira en hinir,“ segir Guðlaug Björt, sem hefur ekki einungis lagt mikla rækt við námið heldur ýmislegt annað líka. „Ég reyni að vinna hlutina aðeins fram í tímann. Og þetta er alveg hægt þótt ég æfi körfubolta og svoleiðis.“
Félagslífið betra með hverju árinu
Guðlaug Björt segir grundvöllinn að góðum námsárangri vera að mæta í alla tíma og vera virk í tímum; skrifa niður og hlusta vel. „Og bara leggja allt í sölurnar. Það eru margir með gáfur en metnaðurinn er mikilvæga viðbótin til að ná lengra.“ Nýbakaði dúxinn tók virkan þátt í félagslífi skólans samhliða námi og segir það hafa verið betra með hverju árinu. „Eftirminnilegastir eru sérstöku dagarnir og kvöldin sem haldin voru hér. Böllinn hafa líka verið skemmtileg og félagsskapurinn. Já, ég fór alveg á böll, var ekki alltaf bara heima að læra,“ segir Guðlaug Björt og hlær. Einnig hafi skólinn verið frábær og þar starfi afar skemmtilegir kennarar. Uppáhaldsfögin hafi verið stærðfræði og raungreinar.
Verður stuðningsfulltrúi í Akurskóla
Guðlaug Björt lauk námi á náttúrufræðibraut á þremur árum vegna þess að hún ætlaði að fara erlendis að spila körfubolta og dreif námið af vegna þess. „En við ætlum að fara út saman, ég og kærastinn, þegar hann er búinn að klára eftir eitt ár. Og taka kannski eitthvað aukalega á í körfunni líka í sumar. Ég verð í 70% starfi sem stuðningsfulltrúi í Akurskóla næsta vetur og karfan verður því líka tekin á fullu. Vonandi fæ ég einhvern styrk út af körfunni.“ Annars stefnir hún á verkfræðinám, jafnvel í Ameríku. Spurð um mögulegt starf í framtíðinni segist hún hafa gaman að því að kenna öðrum. „En ég gæti hugsað mér að starfa við eitthvað sem tengist stærðfræði og raungreinum. Einnig eitthvað sem tengist verkfræði.“
Mikilvægt að velja skemmtilegt nám
Spurð um góð ráð eða leiðsögn til þeirra sem eru að hefja nám í framhaldsskóla segir Guðlaug Björt að mjög mikilvægt sé að velja nám sem sé skemmtilegt. „Auðvitað eru áfangar sem manni finnst ekki skemmtilegir sem þarf að taka en þá er um að gera að velja líka einhverja skemmtilega með. Ekki hugsa um peninga eða svoleiðis þegar maður hugsar um hvað maður ætlar að verða. Maður þarf að vera það alla ævi.“