Laugardagur 27. febrúar 2016 kl. 12:00

Sjónvarp VF: Tunglið kannað á fjórhjólum frá Grindavík

- Með fjórhjól fyrir um 100 milljónir króna

Tveir bræður í Grindavík fóru með um 10.000 manns á síðasta ári í fjórhjólaferðir um Reykjanesskagann. Fyrirtækið, 4x4 Fjórhjólaævintýri, var stofnað árið 2007 og átti að vera aukastarf fyrir þá bræður yfir sumarmánuðina. Í dag eru stöðugildin sjö og hálft allt árið um kring og á álagstímum eru mun fleiri í vinnu hjá fyrirtækinu.

Ferðirnar eru frá klukkustund og upp í tveggja daga ferðir um Reykjanesskagann. Fjórhjólin eru 44 og buggy-bílarnir eru þrír. Þá er fyrirtækið einnig með tuttugu fjallahjól þannig að nærri lætur að fjárfesting í tækjum nemi um 100 milljónum króna. Þá hefur fyrirtækið komið sér upp myndarlegri móttöku fyrir viðskiptavini í nágrenni Grindavíkurhafnar þar sem stutt er út á slóða um Hópsnesið eða upp í fjöllin við Grindavík.

Í Sjónvarpi Víkurfrétta er rætt við bræðurna Jakob og Kjartan Sigurðarsyni, sem fara fyrir 4x4 Fjórhjólaævintýrum. Þeir segja frá galdrinum á bakvið þetta afþreyingarfyrirtæki sem hefur fengið fimm stjörnur hjá TripAdvisor allt frá upphafi. Þeir upplýsa að ef þeir hafi ætlað sér að verða ríkir, þá hefðu þeir farið í annars konar starfsemi. Þeir hafi hins vegar verið duglegir að fara um Reykjanesskagann og séð allar þær földu perlur sem þar væru. Þar sé landslag eins og á tunglinu og hálendislandslag, allt í um 30 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík.