Sunnudagur 31. maí 2015 kl. 08:00

Sjónvarp VF: Óperufarsi í fyrsta íslenska óperustúdíóinu

– Óperufélagið Norðuróp í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Hljómahöll



Óperufélagið Norðuróp í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Hljómahöll í Reykjanesbæ, setur upp gamanóperuna „Brúðkaup Fígarós“ eftir Wolfgang Amadeus Mozart við texta Lorenzo da Ponte. Leikstjóri og tónlistarstjóri er Jóhann Smári Sævarsson. Píanóleikur er í höndum Kristjáns Karls Bragasonar. Þar sem margir söngvarar eru um hvert hlutverk þá eru frumsýningar tvær, 29. og 30. maí en aðrar sýningar eru 3. og 4. júní nk.

„Brúðkaup Fígarós“ er ein af vinsælustu óperum Mozarts og er sýnd reglulega í öllum óperuhúsum heims. Óperan er mikill farsi þar sem segir af greifa nokkrum, konu hans og þjónustufólki. Hún gerist á brúðkaupsdegi Figarós sem er þjónn greifans og Súsönnu þernu greifafrúarinnar. Greifinn er orðin leiður á konu sinni og leitar að öðrum ævintýrum annars staðar, þá aðallega hjá Súsönnu og þá hefst mikil og skemmtileg atburðarás.

Óperan verður flutt í Bergi í Hljómahöll í Reykjanesbæ með píanóundirleik í leikmynd og búningum með leikhúslýsingu. Fluttir verða I og IV þáttur. Fram koma margir af okkar bestu og efnilegustu söngvurum af Suðurnesjum, Akranesi og af stór Reykjavíkursvæðinu.

„Það er búið að blunda lengi í okkur hjá Norðurópi, að stofna óperustúdíó hér á Íslandi, þar sem þrátt fyrir margar góðar söngdeildir er ekkert óperustúdíó starfandi. Óperustúdíó er starfsþjálfun fyrir unga efnilega söngvara og söngkonur sem eru í framhaldsnámi eða búin með framhaldsnám en vantar en sviðsreynslu og sviðstækni. Þar fá þau þjálfun í túlkun og leik auk þess sem þau fá tækifæri til að stíga sín fyrstu skref á sviði, læra að undirbúa hlutverk og flytja í óperuuppfærslum undir leiðsögn reyndra atvinnumanna,“ segir Jóhann Smári Sævarsson, leikstjóri og tónlistarstjóri sýningarinnar.



„Við erum að starta nokkurs konar óperustúdíói Norðuróps í Reykjanesbæ með uppfærslu á óperunni „Brúðkaup Fígarós“ eftir Mozart í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Hljómahöll. Aðdragandi að uppfærslunni hefur verið allt frá árinu 2008. Til stóð að setja upp „Brúðkaup Fígarós“ í heild sinni en við hrunið var verkefnið sett á ís. Síðasta vor fór svo vinna í gang fyrir alvöru en ákveðið að flytja bara fyrsta og fjórða þátt óperunnar sem tekur rúma tvo tíma í flutningi. „Sagan gengur upp þannig,“ segir Jóhann Smári og lofar skemmtilegum sýningum.
Við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar stunda margir efnilegir nemendur söngnám, sem eru að fá sitt fyrsta tækifæri á að spreyta sig á óperusviðinu. „Við erum með fleiri en einn söngvara í flestum hlutverkum og sumstaðar þrjá,“ segir Jóhann Smári. Þau hlutverk sem ekki voru mönnuð með söngvurum innan skólans, þá voru sóttir söngvarar til Reykjanesbæjar, upp á Akranes og á höfuðborgarsvæðið.

Óperan „Brúðkaup Fígarós“ eftir Wolfgang Amadeus Mozart við texta Lorenzo da Ponte á einkar vel við þegar ungir söngvarar eru annars vegar, þar sem Mozart gerir kröfu um mikinn aga jafnt raddlega og í túlkun. Brúðkaup Fígarós er ein af frægustu óperum Mozarts. Jóhann Smári hefur áður sett „Brúðkaup Fígarós“ á svið, á Akureyri vorið 1999 þegar hann var þar yfirmaður söng-, óperu- og ljóðadeildar skólans. Sú uppfærsla var í samvinnu við Leikfélag Akureyrar og var einkar vel tekið.

Nánari upplýsingar um sýningar á „Brúðkaupi Fígarós“ eru í auglýsingu í Víkurfréttum.