Sjónvarp VF: Norðurkot er merkilegt hús við Kálfatjörn
- elsta uppistandandi skólahús í Sveitarfélaginu Vogum
Minjafélag Sveitarfélagsins Voga var stofnað 2003. Markmið þess er að viðhalda og varðveita minjar í Sveitarfélaginu Vogum. Síðsumars árið 2004 fékk félagið Norðurkot á Vatnsleysuströnd að gjöf. Við hjá Sjónvarpi Víkurfrétta skoðuðum Norðurkot á Safnahelgi á Suðurnesjum.
Norðurkot var byggt 1903 og hefur mikið menningarsögulegt gildi í sveitarfélaginu en um er að ræða elsta uppistandani skólahús þess. Norðurkot hafði látið illa á sjá enda ekki verið haldið við hin síðari ár.
Húsið var flutt á fyrirhugað minjasvæði sveitarfélagsins að Kálfatjörn og er nú lokið við endurgerð utanhúss. Leitast var við að það héldi sem næst sínu upprunalega útliti. Hugmyndin er að Norðurkot verði nýtt til uppfræðslu á skólasögu sveitarfélagsins Voga og kennsluháttum fyrr á dögum ásamt tilfallandi verkefnum tengdum störfum félagsins.
Á Safnahelgi á Suðurnesjum var húsið til sýnis ásamt ýmsum munum úr skólasögu Vogamanna. Helga Ragnarsdóttir á sæti í stjórn Minjafélags Sveitarfélagsins Voga og hún ræddi við Sjónvarp Víkurfrétta um Minjafélagið og Norðurkot.