Sjónvarp VF: Á þriðja þúsund krakkar og gestir á Nettó mótinu
Hátt í 1300 krakkar léku 575 körfuboltaleiki í íþróttahúsum Reykjanesbæjar og í Garði á stærsta körfuboltamóti landsins, Nettó-mótinu um síðustu helgi. Með foreldrum er ekki ólíklegt að vel á þriðja þúsund manns hafi komið til Suðurnesja vegna mótsins.
Keflvíkingar og Njarðvíkingar sameinast í utanumhaldi mótsins og Falur Harðarson, mótsstjóri sagði það mjög ánægjulegt hve samstarf Keflavíkur og Ungmennafélags Njarðvíkur gengi vel í þessu stóra móti. Það var fyrst haldið árið 1990 en hét þá Samkaups-mótið. Því hefur vaxið fiskur um hrygg og stækkað í áranna rás. Krakkarnir gista mörg hver í Reykjanesbæ en auk körfuboltafjörs fara þau í bíó, sund og hoppikastalar eru í boði fyrir þau líka.
Falur sem hefur verið mótsstjóri í fimmán ár ætlar nú að stíga til hliðar og hann sagði meðal annars við það tækifæri á Facebook síðu sinni: „Nú 15 mótum síðar, ætla ég að stíga til hliðar sem mótsstjóri. Ég ætla ekki að telja upp allan þann her manna sem ég hef starfað með að þessu mótum, en frekar að þakka öllum þeim sem ég hef einhvern tíma starfað með að Nettómótinu kærlega fyrir samstarfið, án ykkar er þetta ekki hægt!“