Mánudagur 5. júní 2017 kl. 14:47

Sjónvarp: Útskáladagurinn haldinn hátíðlegur

Sunnudaginn 28. maí sl. var Útskáladagur haldinn í fimmta sinn á Útskálum. Hollvinir Útskála efndu til menningarveislu í þeim tilgangi að gefa fólki kost á að fylgjast með endurbótum á gamla prestsetrinu og fræðast um Útskálastað. Að þessu sinni var dagurinn helgaður Lúther, minningu séra Ágústar Sigurðssonar og endurbótum á umhverfi Útskálastaðar.
 
Formaður hollvina, Hörður Gíslason sagði frá markmiðum félagsins og leiddi dagskrá.
 
Meginhluti dagskrár var kynning á starfi og lífshlaupi Lúthers. Dr. Gunnar Kristjánsson fyrrum prófastur sagði sögu Lúters og frá áhrifum hans á kirkju og trúarlíf. Þess er nú minnst víða um lönd að 500 ár eru frá upphafi siðbótarstarfs Lúthers.
 
Þá sagði Guðrún Ásgeirsdóttir ekkja séra Ágústar Sigurðssonar frá starfi hans sem fræðimanns og færði staðnum gjafir.  Séra Ágúst Sigurðsson var afkastamikill fræðimaður og útgefandi efnis. Frú Guðrún ekkja séra Ágústar afhenti Útskálum mikla samantekt um kirkjur og kirkjustaði, sem er tilbúin til skoðunar og birtingar eins og tilefni verða til.
 
Þá kynnti Einar Jón Pálsson forseti bæjarstjórnar í Garði með frásögn og myndefni fyrirhugaða uppbyggingu umhverfis Útskála.  Kvenfélagið Gefn í Garði bauð sem fyrr kaffi og veitingar í Útskálahúsinu.  Unnið er að endurgerð Útskálahúsins og er það fullbúið að utan. Á næstunni hefst vinna við frágang innan dyra, en húsið er þegar notað við fjölmennar samkomur.
 
Garðmenn og brottfluttir nutu þess að heimsækja Útskála, skoða Útskálahúsið og njóta vorkomunnar frá Útskálahólnum með víðsýni til lands og sjávar.
 
Ragnheiður Hjálmarsdóttir frá Nýjalandi gaf fyrir hönd systkyna sína uppsettan bekk. Bekkurinn er framan við Útskálahúsið og víðsýnt af hólnum.

Umsjón með þessu innslagi fyrir Suðurnesjamagasín hafið Guðmundur Magnússon í Garði.