Sunnudagur 11. desember 2016 kl. 18:02

Sjónvarp: Taka ferskvatnssýni þrisvar sinnum á ári

– Sýni tekin úr jarðvegi áður en kísilver tók til starfa

Búist er við að brennisteinstvíoxíð, köfnunarefnisoxíð og svifryk verði helstu mengunarefnin frá vinnslu kísilmálms í Helguvík og er magn þess í andrúmslofti mælt á þremur mælistöðvum í eins til tveggja kílómetra radíus frá verksmiðjunni. Ein mælistöðin er í Helguvík, í næsta nágrenni við Múrbúðina, önnur í Leiru, nálægt golfvellinum, og sú þriðja í hesthúsabyggðinni við Mánagrund. Í Helguvík og Leiru er símæling á öllum efnunum sem eiga uppruna sinn í verksmiðju United Silicon en í mælistöðinni á Mánagrund er einungis mælt brennisteinstvíoxíð. Orkurannsóknir Keilis ehf. sjá um mælingarnar sem framkvæmdar eru samkvæmt vöktunaráætlun United Silicon. Niðurstöðurnar eru birtar á tíu mínútna fresti á vefnum www.andvari.is. United Silicon greiðir fyrir mælingarnar og eru Orkurannsóknir verktakar þeirra. Staðsetningar á mælistöðvunum voru ákveðnar út frá loftdreifilíkönum og vindlíkani.

Tekin voru sýni úr jarðvegi, gróðri og ferskvatni árið 2015, rúmlega ári áður en verksmiðja United Silicon tók til starfa og er vöktunaráætlun United Silicon fyrir tímabilið 2015 til 2025 lögð til grundvallar við sýnatökuna. Sýnin voru tekin af Náttúrufræðistofu Suðvesturlands. Að sögn Egils Þóris Einarssonar, efnaverkfræðings hjá Orkurannsóknum, hafa sýnin öll verið efnagreind og mældir eru þungmálmar, brennisteinn og svokölluð PAH efni. Ferskvatnssýnin eru tekin úr tveimur tjörnum norðan við Helguvík þrisvar sinnum á ári. „Sýnataka á jarðvegi verður endurtekin seinna á næsta ári og þá verður hægt að gera samanburð á ástandinu fyrir og eftir gangsetningu verksmiðunnar. Bakgrunnsmælingarnar eru mjög mikilvægur og stór hluti af ferlinu,“ segir Egill.

Ákveðið var að setja upp mæla á þessum þremur stöðum því þar var gert ráð fyrir hæstu mengunargildum, að sögn Egils. Byrjað var að kynda upp í ofni kísilvers United Silicon fyrir tæplega fjórum vikum og lagði þá reyk- og lyktarmengun yfir hluta Reykjanesbæjar í norðanátt. Þá var verið að brenna timbur og þau efni sem þá lagði frá kísilverinu eru önnur en þau sem mæld eru á mælistöðvunum. Kolmonoxíð er eitt efnanna sem myndast við bruna á timbri og hefur verið settur upp mælir í Heiðarhverfi sem mun mæla magn þess í andrúmslofti. Þegar reykur slapp út úr kísilverinu mældist ekki hækkun á gildum þeirra lofttegunda sem mældar eru á mælistöðvunum þremur. Að sögn Egils gætu þó ýmis efni sem fylgja fíngerðri ösku í reyk mælst í ryksýnum sem safnað er í Helguvíkur mælistöðinni. „Safnað hefur verið ryksýnum í síur allan tímann sem verksmiðjan hefur verið í gangi og verða þau send í greiningu um áramót. Þá fáum við svör við því hvort einhver óæskileg efni hafi verið í svifryki á þeim tíma.“ Í ryksýnum eru mæld efni eins og þungmálmar, brennisteinn og svokölluð PAH-efni sem eru lífræn og myndast við bruna á kolefni.