Sjónvarp: Settu saman og forrituðu vélmenni
- og kepptu svo um hver kom fyrstur í mark
Nemendur í sjöunda bekk Háaleitisskóla á Ásbrú sem hafa nýsköpunar- og tækniáfangann „Hakkit“ sem valfag tóku þátt í svokallaðri línueltikeppni í Eldey, aðstöðu tæknifræðináms Keilis og Háskóla Íslands.
Áfanginn snýst um að kynnast undraheimi nýsköpunar og tækni og fengu nemendur meðal annars það verkefni að smíða lítil vélmenni sem eru eins og bílar og forrita þau til þess að geta ekið eftir strikaðri braut ásamt því að geta stjórnað þeim með snjallsímaappi. Keppt var um hvaða vélmenni fór hraðast í gegnum brautirnar. En hvernig voru vélmennin smíðuð?
„Við fengum kassa með litlum hlutum og áttum að setja vélmennið saman og notuðum örtölvur til að forrita hugbúnaðinn,“ segir Jón Kristófer Vignisson, nemandi í Háaleitisskóla, sem sigraði aðra keppnina, þar sem hann stýrði vélmennabíl sínum hraðast í gegnum brautina með snjallsímaapp fyrir fjarstýringu.
Aðspurðir segja kennararnir, þeir Marek Antoni Kraciuk og Pétur Freyr Kristmundsson hugmyndina að keppninni hafa komið þegar krakkarnir voru búnir að setja saman vélmennabílana og forrita þá. Þeim hafi þótt frábær hugmynd að halda keppni um hver gæti komist í gegnum brautir á sem stystum tíma. Önnur brautin var þannig að bílarnir áttu að keyra sjálfir eftir miðlínu en hin brautin gekk út á að nemandinn stýrði bíl sínum með fjarstýringu í gegnum brautina, en sú fjarstýring var í formi snjallsímaapps.
„Það fóru tólf vikur í undirbúning á vélmennunum, en fyrst þurftum við að kenna nemendunum hvernig rafmagn virkar. Við kveiktum á perum, sýndum þeim plús og mínus og fórum yfir hvað straumur og spenna er. Svo fórum við að vinna í að setja vélmennin saman, tengja alla mótora og svo notuðum við örtölvur til að forrita hvað vélmennin ættu að gera.
Við notuðum mjög einfalda forritun sem var blanda af C og C++ og innihélt aðeins einfaldar skipanir eins og „if“ og „else“ og lesa skynjara, hvort hann segir einn eða núll og úr því settum við saman forrit. Við vonum að við höfum náð að kveikja frekari áhuga hjá krökkunum fyrir tækni og nýsköpun,“ segja Marek og Pétur.
Keilir hefur tekið að sér að annast valgreinar fyrir nemendur í Háaleitisskóla á Ásbrú. Fyrir áramót verða nemendurnir í „Hakkit“ smiðjunni í Eldey en eftir áramót kynna þau sér fluggreinar eins og flugvirkjun og flugnám.