Sjónvarp: Ökumaðurinn fastur í bílnum
– mikill viðbúnaður sjúkraliðs og lögreglu.
Útlimur ökumanns jeppabifreiðar var fastur í bílnum eftir að bifreiðin sem hann ók valt í hálku á Krýsuvíkurvegi um miðjan dag. Auk ökumanns voru þrír farþegar í bílnum. Tveir voru fluttir með þyrlu á slysadeild Landspítalans í Fossvogi og tveir voru fluttir með sjúkrabílum.
Tilkynning barst um slysið um kl. 14 í dag og voru sjúkrabílar sendir frá Grindavík, Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Slysið varð við Suðurstrandarveg nærri Krýsuvík. Þá var sendur á staðinn tækjabíll Slökkviliðs Grindavíkur. Lögreglan á Suðurnesjum var einnig kölluð til ásamt rannsóknardeild.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var við æfingar á Reykjanesi og bauð fram aðstoð sína við flutning slasaðra. Þyrlan lokaði Suðurstrandarveginum ó þó nokkra stund en það kom ekki að sök og þurftu fáir bílar að bíða á meðan vettvangur var lokaður.
Talsverð hálka var á veginum en gengið hefur á með éljum í dag.
Meðfylgjandi myndskeið tók myndatökumaður Sjónvarps Víkurfrétta á vettvangi slyssins í dag.