Sjónvarp: Obama grínast með Guðmund Steinarsson
– „Líklegast fyrsta leitarvélin sem að forseti Bandaríkjanna mælir með,“ segir Guðmundur
Obama Bandaríkjaforseti beindi óvænt kastljósi sínu að Guðmundi Steinarssyni, mennskri leitarvél úr Reykjanesbæ, í ávarpi sem forsetinn flutti í dag í Hvíta húsinu. Þar var forsetinn með norræna gesti og grínaðist með það í ræðu hvernig fólk gæti aflað sér upplýsinga um Ísland og Íslendinga.
„Líklegast fyrsta leitarvélin sem að forseti Bandaríkjanna mælir með,“ segir Guðmundur Steinarsson íþróttakennari og knattspyrnumaður úr Keflavík sem var einmitt í hlutverki #askgudmundur fyrir réttu ári síðan ásamt nokkrum öðrum íslenskum Guðmundum.
Hér að ofan má sjá myndskeið úr ávarpi Bandaríkjaforseta og einnig innslag Sjónvarps Víkurfrétta um #askgudmundur frá því í maí í fyrra.