Sjónvarp: Kettir björguðu lífi móður og barns
– kröfsuðu í hurð á svefnherbergi og vöktu heimilisfólkið
Kettir eru taldir hafa bjargað lífi móður með ungt barn á Ásbrú í morgun. Móðirin var með barnið sofandi inni í svefnherbergi þegar krafsað var ákveðið í svefnherbergishurðina. Konan fór þá að athuga hvað væri í gangi. Um leið og hún opnaði hurðina mætti henni þykkur svartur reykur. Hún tók barnið í fangið og kom sér út úr íbúðinni um svalahurð.
Lögregla og slökkvilið voru fljót á vettvang og fljótlega fundust kettirnir á svefnherbergisgólfinu. Þeim var komið út um glugga þar sem slökkviliðsmaður tók þann fyrsta en hina tvo tók lögreglan. Fyrsta kettinum var strax farið með á dýraspítala af húsráðanda en hinir tveir voru líflausir þegar lögreglumenn á vettvangi tóku sig til og nudduðu lífi í þá. Þá fengu þeir súrefniskút í sjúkrabíl á vettvangi og gáfu köttunum súrefni. Þeim var svo ekið með hraði til dýralæknis. Þar fengu þeir áframhaldandi meðferð og hresstust fljótt og voru þá settir í bað, enda sótugir eftir að hafa verið í reykjarkófinu.
Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá myndir af björgun kattanna og viðtal við Sigvalda Arnar Lárusson, lögregluvarðstjóra, sem lýsir því sem gerðist.