Sjónvarp: Kemur strönduðum skipum af strandstað
– Sigurður Stefánsson kafari hefur í nógu að snúast
Báturinn Gottlieb GK varð vélarvana við Hópsnes á miðvikudag í síðustu viku og rak bátinn hratt að landi. Fjórir skipverjar voru um borð. Þegar í stað var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út sem og björgunarsveitir á Suðurnesjum og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Þá var samhæfingarstöðin einnig virkjuð.
Skömmu eftir að útkallið barst var báturinn kominn upp í kletta og lagðist þar á hliðina. Nærstaddir bátar á svæðinu komust ekki að til aðstoðar. Strekkingsvindur var á svæðinu, SA 10-12 m og aðstæður á staðnum erfiðar.
Skipverjar, sem voru allir í björgunargöllum, náðu allir að komast upp í fjöru heilir á húfi. Um hálftíma eftir að útkallið barst lenti þyrla Landhelgisgæslunnar í fjörukambinum og flutti skipverjana til Grindavíkur.
Þegar ljóst var að mannskapurinn var heill á húfi hófst strax undirbúningur að því að bjarga bátnum úr fjörunni. Það var hins vegar ekki fyrr en á föstudag sem björgunaraðgerðir gátu hafist þegar leyfi höfðu fengist hjá Umhverfisstofnun fyrir því að fara með tæki í fjöruna til að fjarlægja bátinn og afla.
Tvær stórvirkar beltagröfur voru fengnar til að koma bátnum af strandstað og hófs vinna við það snemma á föstudagsmorgun. Í hádeginu þann dag var Gottlieb GK kominn upp á fjörukambinn og um miðjan dag hófst svo vinna við að koma bátnum upp á veg. Það gekk eins og í sögu og báru gröfurnar bátinn á milli sín.
Þegar komið var upp undir Hópsnesvita gat hafist löndun úr bátnum. Á milli þrjú og fjögur tonn af fiski voru um borð. Þau voru hífð á vörubíl og í framhaldi var báturinn settur á vagn sem flutti hann að Skipasmíðastöð Njarðvíkur.
Sigurður Stefánsson hjá Köfunarþjónustu Sigurðar sá um björgun bátsins af strandstað fyrir útgerðina og tryggingafélag skipsins. Víkurfréttir tóku Sigurð tali þegar bátnum hafði verið komið til Njarðvíkur.
Atvikaðist allt mjög hratt
„Þetta atvikaðist allt mjög hratt. Þegar kallið kemur til mín þá eru mennirnir ennþá um borð. Útgerðin hefur samband við mig og biður um aðstoð við að koma mönnunum í land í samstarfi við björgunarsveitir. Fyrsta skrefið í svona aðgerð er að tryggja að mannskapurinn komist heill frá borði. Þá tekur við að bjarga bæði skipi og farmi. Það er næsta skref í samstarfi við tryggingafélag og útgerð“.
- Þú flaugst með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir slysstaðinn skömmu eftir að mennirnir voru komnir í land. Hvernig voru aðstæður?
„Aðstæður voru svo sem ekki alslæmar. Það var um tveggja metra ölduhæð og álandsvindur. Skipið var hins vegar komið of langt upp í fjöruna þannig að hægt væri að bjarga því frá sjó á þessu flóði og eftir það var björgun frá sjó ekki möguleiki. Flugferðin var ætluð til að meta aðstæður og grynningar þar í kring en því miður reyndist ekki mögulegt að bjarga bátnum frá sjó í þessu tilviki“.
- Þið fáið svo þessar beltagröfur á staðinn. Var það eina leiðin til að koma bátnum af strandstað?
„Já, úr því sem komið var. Nóttina eftir strandið gerði fimm metra ölduhæð sem kastaði bátnum ennþá ofar í fjöruna og það brotnaði tölvuvert í þeim sjó. Eina leiðin til að ná bátnum heilum af strandstað var að fara landleiðina með beltagröfunum. Þetta voru öflugar beltavélar og toppmannskapur sem aðstoðaði okkur við þetta“.
Stórgrýtt fjara
– Þessi aðgerð gekk í raun eins og í lygasögu.
„Já, þetta gekk alveg ótrúlega vel. Það er gríðarlega stórgrýtt fjara þarna og það kom okkur öllum á óvart hvað þetta gekk vel. Það voru allir búnir unir að þetta myndi ekki takast, en vélarnar voru öflugar og mennirnir góðir á vélunum og menn unnu sem ein heild í þessu og þetta gekk allt upp, fullkomlega“.
– Þú hefur tekið þátt í einhverjum svona aðgerðum áður?
„Já, já, já. Ég hef ekki tölu á þeim lengur, er löngu hættur að telja. Það er all frá flutningaskipinu Wilson Muuga og niður í smáströnd. Þá er ég einnig búinn að taka þátt í að sækja báta niður á hafsbotn“.
– Hvernig er þetta neðansjávarlíf. Hvað fékk þig til að fara út í þessa atvinnuköfun á sínum tíma?
„Þetta byrjaði sem áhugi fyrir köfun þegar ég var gutti. Ég var til sjós í nokkur ár og fór svo í land og lærði vélstjórn. Þá kom þessi áhugi að fara í björgunarsveitina og þar hef ég verið meira og minna í 20 ár. Ég fékk að kafa þegar ég var í björgunarsveitinni og þar fékk ég áhugann. Ég var búinn að vera eitt ár í sportköfun þegar ég fór til Skotlands og lærði atvinnuköfun og hef verið við þetta síðan 1998“.
Ævintýrin kalla á mann
– Hvað er svona heillandi við köfun?
„Í dag eru það bara ævintýrin sem kalla á mann. Maður þvælist um landið og það er enginn dagur eins hjá mér. Það er fjölbreytileiki við starfið sem heldur manni í þessu“.
– Þú hefur í eitt ár rekið þjónustubát fyrir köfunina. Er hann að auka hjá þér verkefnin?
„Já, ég er að vona það. Það er mikið af fyrirspurnum nú fyrir sumarið með verkefni með bátinn. Hann var í ellefu mánuði í aðstoð við laxeldi í Arnarfirði og vonandi verður hann áfram í þjónustu minni í aðstoð við köfunarverkefni“.
– Þú hefur eitthvað verið að kafa eftir skel.
„Ég hef verið að tína öðuskel sem hefur verið seld á veitingahúsinu Vitanum í Sandgerði hjá föður mínum. Mér skilst að hún sé eftirsóttasti rétturinn á disknum. Þetta verkefni hefur komið mjög vel út og ég fer reglulega að tína skel og henni er svo haldið lifandi í kerjum fyrir utan veitingastaðinn.
Starfsmenn Köfunarþjónustu Sigurðar eru að jafnaði tveir til þrír. „Ég hef viljað halda þessu smáu í sniðum og vinna þetta mest sjálfur, ég hef svo gaman af þessu“.
Tilbúinn til köfunar allan sólarhringinn
– Hvernig ertu útbúinn. Getur þú bara hoppað í hafið á nokkrum mínútum?
„Ég er þannig útbúinn að í bíllinn minn er útbúinn til köfunar fyrir tvo kafara allan sólarhringinn. Útkallstíminn er þá bara sá tími sem það tekur að komast á vettvanginn þar sem þarf að kafa. Kafarar vinna svo með aðfluttu lofti og eru tengdir við bílinn með myndavél og fjarskiptum. Einnig erum við útbúnir þannig að kafari getur verið með súrefni í tanki á bakinu“.
Sigurður segist þjóna útgerðinni mest þannig að kafarinn sé tengur með loftleiðslu í land. Það sé mikið öryggi í því. Þá skipti það máli fyrir útgerðarmanninn, skipstjórann eða vélstjórann að sjá hvað sé í gangi. Þeir sitji inni í bíl og sjái á skjá allt það sem kafarinn sér. Ef kafarinn sér það ekki þá sé möguleiki á að þeir sjái það og bendi kafaranum á það“.