Þriðjudagur 16. október 2018 kl. 07:01

Sjónvarp: Hljómsveitin aldrei betri en trommarinn

Tónlistarkennarinn Þorvaldur Halldórsson er meðal okkar bestu trommara „Mennskur taktmælir - hefur ekkert fyrir þessu erfiða dóti“

Trommarinn er alla jafna hálf ósýnilegur á sviðinu. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar skyggja yfirleitt á trommarann sem lemur húðirnar einbeittur og heldur öllum í takti. Þorvaldur Halldórsson er einn af þessum trommurum. Garðbúinn hefur haldið takti hjá hljómsveitinni Valdimar frá stofnun hennar árið 2009. Sveitin var að gefa út sína fjórðu plötu á dögunum. Það styttist í tíu ára afmæli hljómsveitarinnar sem virðist hvergi slá af.

„Ég er yfirleitt kallaður Valdi af fjölskyldu og vinum. Það verður stundum ruglingur á tónlistaræfingum, þá fæ ég formlega nafnið Þorvaldur.“ segir hinn Valdinn í bandinu en söngvarinn Valdimar Guðmundsson hefur jafnan farið fyrir sveitinni og verið andlit hennar út á við en hann er einmitt kallaður Valdi líka. Leiðir Valdimarliða lágu upphaflega saman í Tónlistarskólanum í Keflavík en seinna meir varð úr hljómsveitin vinsæla eins og þekkt er orðið.

Trommur heilluðu Þorvald frá unga aldri þrátt fyrir að honum hafi verið ýtt að píanóinu fyrst um sinn. „Besti vinur minn í Garðinum var að læra á trommur á sama tíma og ég sá trommusettið heima hjá honum. Það heillaði mig strax miklu meira en píanóið. Ég fór með honum í tíma einu sinni og kennarinn spurðu hvort ég vildi ekki prufa. Ég gat strax spilað það sem þeir höfðu verið að æfa og áhuginn kviknaði.“ Það er óhætt að segja að þetta hafi legið vel fyrir honum, jafnvel hægt að tala um „náttúrutalent“, ef út í það er farið. Nú löngu síðar er Þorvaldur sprenglærður tónlistarkennari sem margir í bransanum tala um sem besta trommara landsins. „Það hafa allir sínar skoðanir. Sitt sýnist hverjum,“ segir trommarinn hógvær á meðan hann kemur að nafni nýju plötunnar. „Án efa tilkomumesta verk Valdimars til þessa, og hugsanlega það besta,“ hafði gagnrýnandinn Arnar Eggert Thoroddsen að segja um nýja gripinn. Hinar plöturnar Undraland (2010), Um stund (2012) og Batnar útsýnið (2014) hafa allar hlotið mikið lof og sveitin er sívinsæl á tónleikum.

Setur sinn svip á tónlistina

Hlutverk trommarans er mikilvægt í hverri hljómsveit. „Þeir sjá um að halda rythmanum í bandinu. Svo ég vitni í þekktan rokkara héðan úr bænum, þá verður hljómsveitin aldrei betri en trommuleikarinn, mér finnst mikið til í þessu,“ segir Þorvaldur léttur í bragði en þar vísar hann í ódauðleg orð Rúnars Júlíussonar. Hann segist reyna eftir fremsta megni að fara út fyrir kassann í sínum trommuleik. Gera ekki það fyrsta sem honum dettur í hug. „Ég er ekki að reyna að finna upp hjólið en ég hef gaman af því að reyna að búa til minn stíl. Setja mín fingraför á tónlistina.“

Einn í þögninni

Valdi er sífellt trommandi allan daginn. Hann putta-trommar á stýrið í bílnum, á borð og stóla og alla mögulega hluti. Hann er skapandi og semur flesta takta sem hljómsveitin notast við. Einnig hefur hann samið texta og dútlað við lagasmíðar. Þekktasti texti Þorvaldar er við lagið Yfirgefinn. Valdimar söngvari bað strákana um meiri læti í viðlaginu og Þorvaldur smíðaði texta í kringum þá bón. „Ég hafði verið að horfa á bíómyndina Green Mile. Þar er einhverjum náunga fleygt í einangrunarklefa. Ég fór að hugsa um hvernig það væri, að vera einn í þögninni sem er svo mikil að þú hreinlega klikkast. Ég gat tengt það við lætin hans Valda.“

Biðlisti í námið

Bróðurpart vikunnar dvelur Þorvaldur í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þar sem hann er með um 16 nemendur í í trommuleik á sínum snærum.  Hann segir það eiga vel við sig að kenna og kann vel við starfið. Hefur hann 16 nemendur á sínum snærum og alltaf er biðlisti. Ef enginn hættir þá kemst enginn nýr inn. Kennslustofan er full af áhugaverðum hlutum og meðal annars má finna listaverk eftir fyrrum nemanda, Eyþór Eyjólfsson (Ethorio). „Ég spurði hann einu sinni hvort hann hefði aldrei málað trommara og spáði svo ekkert meira í því. Seinna birtist hann svo með þessa mynd upp úr þurru sem hann gerði sérstaklega fyrir mig. Mér þykir mjög vænt um hana,“ segir Þorvaldur.

Valdimar Guðmundsson um Þorvald: 
Hugsar út fyrir boxið

„Hann hugsar alltaf út fyrir boxið þegar hann semur trommutakt, ofboðslega músíkalskur trommari. Ég hef hitt fleiri en einn og fleiri en tvo reynda trommuleikara sem hafa sagt mér að þeir ættu ekki séns í að leika eftir sumt sem hann spilar.“

Björgvin Ívar tónlistarmaður um Þorvald: 
Mennskur taktmælir

„Hann er svo svakalega teknískur og eins og mennskur taktmælir. Hann hefur ekkert fyrir þessu erfiða dóti. Maggi Tryggva, einn sá besti, sagði að Þorvaldur gerði hluti sem þá bestu dreymir um að geta.“