Sjónvarp: Golfakademían tekin í notkun
- inniæfingaaðstaða á pari við það besta hér á landi
Fjöldi fólks lagði leið sína í Íþróttaakademíuna við Sunnubraut 35 í Reykjanesbæ á föstudaginn var þegar bæjaryfirvöld afhentu formlega Golfklúbbi Suðurnesja og Púttklúbbi Suðurnesja glæsilega inniæfingaaðstöðu til golfiðkunar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, og Lovísa Hafsteinsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, héldu tölu og óskuðu klúbbunum til hamingju með nýju aðstöðuna. Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður GS, þakkaði rausnarlegt framlag bæjarins og sagði þetta vera lyftistöng fyrir golfíþróttina á Suðurnesjum og að hér verði nú loks hægt að stunda golfæfingar allt árið um kring.
„Þetta kemur til með að breyta stórkostlegu fyrir okkur. Þetta gerir íþróttina að heilsársíþrótt fyrir okkur. Krakkar, unglingar og afreksfólk hjá okkur hefur þurft að sækja æfingar yfir vetrartímann tvisvar til þrisvar í viku á höfuðborgarsvæðið með tilheyrandi kostnaði og óþægindum.
Þessi aðstaða sem við höfum hérna er alveg frábær. Hér er hægt að æfa allt sem snýr að golfi og kemur til með að hafa góð og jákvæð áhrif fyrir klúbbinn í framtíðinni,“ segir Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður Golfklúbbs Suðurnesja.
- Hvað er nákvæmlega í þessari aðstöðu?
„Þetta eru tveir salir sem við höfum hérna. Stærri salurinn er um 130 fermetrar og þar er stór púttflöt. Yfir hálfa flötina getum við svo dregið net til að slá í og þá leggjum við bara mottur á gólfið. Þessi salur nýtist okkur GS-ingum vel bæði til að æfa pútt og högg. Þá höfum við smærra rými þar sem er golfhermir. Golfhermirinn var keyptur nú í haust og er af fullkominni gerð. Hann nýtist sem leiktæki fyrir félagsmenn. Hér geta þeir spilað frægustu velli í heimi án þess að fara úr Reykjanesbæ. Jafnframt er hann gott æfingatæki og í herminum er hægt að greina sveifluna og þar geta betri kylfingar bætt sig og orðið enn betri.“
- Hvernig munuð þið nýta aðstöðuna. Verður hér starfsemi alla daga vikunnar?
„Til að byrja með sjáum við það fyrir okkur að æfingar hefjist hér klukkan 15 á daginn hjá börnum og unglingum og standi fram á kvöld. Það verður einnig opið tvö kvöld í viku fyrir hinn almenna félaga þar sem hann getur komið og æft sig. Golfhermirinn verður opinn alla daga og það þarf að panta tíma í hann og hann mun kosta aukalega. Púttklúbbur Suðurnesja nýtir svo þessa aðstöðu hluta úr degi og við pössum upp á að það skarist ekki við starf Golfklúbbs Suðurnesja og höfum haft ágætis samstarf um það.“
- Ertu púttararnir fyrr á ferðinni en þið kylfingar?
„Þeir eru árrisulli og ekki mikið í skóla en börnin okkar byrja æfingar eftir skóla.“
- Þessi aðstaða er mikil bót frá því sem áður var hjá klúbbnum.
„Það er ekki hægt að lýsa því. Þetta er stórkostlegt. Þessi aðstaða er svo hlýleg og flott. Þetta eru ekki margir fermetrar sem við höfum en þeir eru gríðarlega vel nýttir. Ég held að þessi aðstaða jafnist á við það besta sem við höfum hér á Íslandi.“
- Það kom fram við opnun aðstöðunnar að félögum í Golfklúbbi Suðurnesja hafi fjölgað mikið.
„Já og ég þakka það að miklu leyti því að fólk vissi að þessi aðstaða væri á leiðinni. Þetta er orðin heilsárs íþrótt og það hefur orðið um og yfir 20% fjölgun í klúbbnum í ár. Þó að sumarið hafi verið gott golflega séð, þá höfum við áður fengið góð sumur án þess að það hafi skilað sér í svona fjölgun félagsmanna. Ég held að það sé þessari inniæfingaraðstöðu að þakka. Það er líka von mín að þessi inniæfingaraðstaða komi til með að efla afreksstarf klúbbsins til muna í náinni framtíð. Ég vil því þakka stjórnendum Reykjanesbæjar fyrir að gera þessa aðstöðu, sem ég tel vel heppnaða, að veruleika.“