Sjónvarp: Fór úr meikinu í drulluna
-Sigurbjörg starfar sem „bensíngaur“ á Keflavíkurflugvelli.
„Nær daglega hitti ég fólk sem verður hissa þegar það sér mig keyra trukkinn og dæla eldsneyti á flugvélarnar,“ segir Sigurbjörg Ólafsdóttir sem starfar sem bílstjóri hjá Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli. Sigurbjörg hafði unnið við ýmis störf og átt erfitt með að ná endum saman þegar hún ákvað árið 2007 að taka meiraprófið og reyna fyrir sér sem atvinnubílstjóri.
„Á þeim tíma var ég einhleyp tveggja barna móðir og vann í í snyrtivörudeild Fríhafnarinnar og dæmið gekk ekki alltaf upp fjárhagslega. Ég hugsaði með mér að ég þyrfti að finna leið til að auka tekjurnar. Svo það má eiginlega segja að ég hafi farið úr meikinu í drulluna,“ segir Sigurbjörg og hlær. Hún hafði séð konur keyra trukka hjá verktakafyrirtækinu Klæðningu og spurðist fyrir um laun hjá öðrum bílstjórum og komst að því að þau eru töluvert hærri en í þeim störfum sem hún hafði áður fengist við. „Ég hafði samband við Klæðningu og spurði hvort ég fengi vinnu þar ef ég myndi klára meiraprófið. Úr varð að fyrirtækið greiddi fyrir meiraprófið og ég byrjaði að vinna þar. Um tíma vorum við fimm konurnar sem vorum bílstjórar hjá Klæðningu.“
„Svo þú ert bensíngaurinn“
Eftir bankahrunið var minna um atvinnu fyrir bílstjóra og þá fór Sigurbjörg í skóla og kláraði stúdentspróf af listnámsbraut í textíl og fatahönnun, fór í barneignarleyfi og keyrði hjá ýmsum fyrirtækjum í afleysingum. Í fyrrasumar hóf hún svo störf hjá Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli og kann mjög vel við sig þar. Hún er eina konan sem starfar sem bílstjóri þar sem stendur. Hún segir fólk oft reka upp stór augu þegar það sjái hana hoppa út úr trukknum og hefjast handa við að dæla eldsneyti á flugvélarnar. „Á flughlaðinu er flestir starfsmennirnir karlar og þeir eru orðnir vanir að sjá mig en svo koma hingað erlendar vélar og flugmenn þeirra segja oft við mig að kona hafi aldrei áður dælt á flugvél hjá þeim. Einu sinni kom erlend vél og ég heilsaði flugmanninum og sagðist vera með eldsneytið. Hann bað mig um að bíða aðeins og svo gekk hann í kringum vélina og leit inn í trukkinn. Næst horfði hann furðu lostinn á mig og spurði: „Svo þú ert bensíngaurinn?“
Dæling eldsneytis á flugvélar reynir nokkuð á líkamann þegar bera þarf þungar slöngur með stórum stútum upp stiga. Þegar verið er að dæla á stærri vélarnar er þó notuð lyfta. Sigurbjörg segir handtökin hafa verið nokkuð þung í byrjun en að með réttu tækninni gangi starfið vel.
Með mömmu á trukknum
Sambýlismaður Sigurbjargar er Óskar Guðfinnur Bragason, bifvélavirkjameistari og býr fjölskyldan í Garði. Bílar eru sameiginlegt áhugamál fjölskyldunnar og þau láta sig helst ekki vanta á Bíladaga á Akureyri ár hvert. Sigurbjörg á þrjú börn, tvö á unglingsaldri og fimm ára gamlan son. Sá yngsti er einstaklega ánægður með starf mömmu sinnar og hefur fengið að koma með í ökuferðir á trukki. „Þegar ég var í gámakeyrslu hjá Fitjaflutningum og í sementskeyrslu hjá Aalborg Portland kom hann stundum með mér í vinnuna þegar það var frí í leikskólanum. Hann var mjög stoltur og sagði vinum sínum á leikskólanum að hann hefði sko verið með mömmu sinni á trukknum. Svo hefur mamma mín tvisvar sinnum komið með mér í ferðir á Hornafjörð með sement og í annað skiptið gistum við í kojum í bílnum. Í hitt skiptið spurðum við eiganda steypufyrirtækis hvort við mættum leggja á planinu hjá honum og gista þar í bílnum en hann tók það ekki í mál og bauð okkur gistingu og mat.“
Erfitt í fyrstu ökutímunum
Sigurbjörg segir fyrstu ökutímana í meiraprófinu hafa verið nokkuð strembna. „Ég var með áhyggjur af því að klúðra öllu en svo eftir fimm ferðir var þetta ekkert mál.“ Fyrst eftir að Sigurbjörg lauk meiraprófinu keyrði hún fjögurra öxla vörubíl hjá Klæðningu en fór svo fljótlega að keyra bíl með festivagni. „Það var svolítið stressandi í byrjun að keyra svo stóran bíl en í kringum mig voru menn að vinna á gröfum og þegar ég þurfti aðstoð stukku þeir út og leiðbeindu mér. Það þýðir ekkert að vera að pirra sig þegar það gengur ekki allt fullkomlega. Það hefur alltaf verið þannig að allir hafa verið boðnir og búnir að hjálpa og koma með góð ráð. Stundum skjóta menn á mig í gríni því ég er kona en það eru yfirleitt aldrei nein leiðindi en ef þau hafa komið upp hef ég bara hugsað með mér að það sé eitthvað sem þeir verði að eiga við sig. Í gegnum tíðina hef ég átt miklu fleiri samstarfsmenn sem eru jákvæðir og kurteisir.“
Viðtal og ljósmyndir: Dagný Hulda Erlendsdóttir // Video: Hilmar Bragi Bárðarson