Sjónvarp: Fjallgöngumaður á níræðisaldri klífur Þorbjörn daglega
- Göngustafir og broddar nauðsynleg hjálpartæki
Samúel Alferðsson er 82 ára og býr í Grindavík. Hann hefur búið þar síðan um miðjan áttunda áratuginn. Hann hafði áður verið bóndi norður á Ströndum en þegar hann flutti til Grindavíkur fékk hann vinnu í frystihúsi. Hann gerðist síðar bílstjóri og ók olíubíl sem m.a. var tíður gestur við Grindavíkurhöfn til að dæla eldsneyti á flotann. Hann var á olíubílnum þar til hann varð sjötugur en þá settist hann í helgan stein. Hann hefur hins vegar ekki setið auðum höndum því eftir að hann flutti til Grindavíkur þá hefur Þorbjarnarfell eða Þorbjörn, eins og heimamenn kalla hann, dregið Samúel til sín. Hann hóf fyrir mörgum árum að ganga á fjallið sér til heilsubótar og líkamsræktar. „Maður er ekki að sprikla í svitanum af næsta manni þegar gengið er á fjallið,“ segir Samúel sporskur i samtali við Víkurfréttir.
– Hvað fékk þig til að fara að ganga á Þorbjörninn?
„Það voru tvær vinkonur mínar úr Keflavík, systurnar Björg og Sigrún Ólafsdætur, sem fengu mig af stað fyrir þó nokkrum árum. Ég vil þakka þeim fyrir hvað ég er við góða heilsu“.
– Er það einhver fíkn að príla upp þetta fjall?
„Nei, það er ekki fíkn. Maður hefur bara ánægju af lífinu og reynir að halda skrokkhelvítinu gangandi“.
– Ertu búinn að stunda þetta lengi?
„Það er þó nokkuð síðan ég byrjaði að ganga á Þorbjörn en hér áður fyrr fór maður á sumrin og valdi sólardag en nú ferð maður í allskonar veðrum“.
– Hvernig er besta veðrið til að klífa fjöll?
„Það er sólarlaust hægviðri“.
– Dagur eins og í dag, bjartur en kaldur, er það gott gönguveður?
„Þetta er mjög góður dagur, mjög góður“.
– Hvað ertu lengi að fara upp fjallið?
„Frá bíl og upp að gestabókinni og aftur niður, þá er ég um 40 mínútur í hægviðri en 50 mínútur ef ég fer upp að möstrunum sem ég geri nú stundum“.
Samúel segist alltaf hafa haft gaman af því að fara upp á fjöll. Þegar hann var við búskap norður á Ströndum fór hann þó aðallega í fjallgöngur ef það væri erindi, eins og við smalamennsku eða þessháttar.
– Þú ert ekki einn á fjallinu. Það er hellings umferð upp og niður.
„Það er hellings traffík. Á góðum dögum eru oft 20 til 30 manns“.
Aðspurður hvaða fólk væri að ganga á Þorbjörn þá sagði hann að nýjasta skráningin í gestabókina hafi verið frá pari frá Nýja Sjálandi. Á þessu ári væri þó nokkuð af útlendingum búnir að ganga upp að gestabókinni.
– Ertu að fara þetta í flestum veðrum?
„Nei, ég segi það ekki. Svona karlandskoti á níræðisaldri fer nú ekki í hvaða veðri sem er“.
– Hvernig ertu útbúinn. Ertu í góðum gönguskóm og með stafi?
„Ég nota alltaf stafi upp. Ég var svo heppinn að hitta Laufeyju vinkonu mína og manninn hennar nokkru fyrir jól. Ég sá undir iljar þeirra og þau voru á broddum. Ég fór daginn eftir í Útilíf og keypti brodda“.
– Og það munar um það?
„Já, í harðfenni og hálku er þvílík öryggistilfinning og ég er hissa á að hafa ekki hugað að þessu fyrr“.
Samúel segist yfirleitt vera einn á ferð og sé ekkert að draga fólk með sér í fjallgöngur. Hann segist ánægður með sjálfum sér. Aðspurður hvort hann hlusti á tónlist eða hugleiði á göngunni upp og niður fjallið, þá segir hann að á sumrin njóti hann þess að hlusta á fuglasöng. Tíminn sem fer í gönguna sé góður til að vera einn með sjálfum sér hvort sem hann sé notaður til að hugleiða eða hugsa ekki neitt, segir Samúel sporskur. Hann segist fara gætilega á göngunni. Hann hafi dottið á andlitið á auðum vegi í haust. Hann hafi sloppið óbrotinn frá flugferðinni en hruflað á sér andlitið. „Ég hef farið varlega síðan þá“.
– Stundar þú einhverja aðra líkamsrækt í Grindavík?
„Nei, ekki aðra en þá að við gamlingjarnir megum ganga í Hópinu klukkan sex á morgnana. Ég mæti þar yfirleitt um sexleitið svona til öryggis ef það er ekki veður til að fara á fjallið. Ég labba þá í hálftíma til 40 mínútur í húsinu“.
– Veistu hvað fjallgangan er að gefa þér þegar kemur að brennslu og öðru slíku?
„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég er ekki með ístru og vil ekki fá ístru“.
– Ertu að borða vel fyrir svona göngur? Hvað ertu að borða?
„Ég borða bara gamlan íslenskan mat, feita bringukolla og svoleiðis“.
– Það er tími til þess núna á Þorranum.
„Já, mjög góður tími“.