Mánudagur 28. desember 2015 kl. 08:33

Sjónvarp: „Endarnir eru alltaf góðir“

– Valgeir Þorláksson bakarameistari sestur í helgan stein

„Þetta eru orðin 45 ár plús og þeir segja það gárungarnir að ég eigi orðið nokkuð mikið inni af sumarfríi,“ sagði Valgeir Þorláksson bakarameistari í Valgeirsbakaríi þegar hann var kvaddur í bakaríinu sl. laugardag. Síðasti formlegi vinnudagur Valgeirs er hins vegar í dag, þriðjudag.

- Hver er með sumarfríið þitt á hreinu?
„Jaaa, það veit það eiginlega enginn. Ekki einu sinni Lena, sem er nú góður reikningshaus“.

- Ef þú horfir til baka, hvað er eftirminnilegast úr bakaríinu?
„Eftirminnilegast er þegar við byrjuðum með bakaríið því þá vorum við næstum með tvær hendur tómar og baráttan var mikil. Þá voru tvö bakarí fyrir í Keflavík og þetta var Njarðvíkurbakaríið. Það má segja frá því að Ameríkaninn tók mér fagnandi og það var hann sem hélt í mér lífinu um tíma. Svo kom þetta smátt og smátt. Þegar við byggðum hérna þá var eins og fólk tæki okkur í arma sína því að í hvert skipti sem var steypt þá fylltist gamla bakaríið“.

- Hefur reksturinn gengið vel alla tíð?
„Okkur hefur alltaf gengið vel. Ég held að það hafi aldrei verið tap nema rétt fyrsta árið. Eftir það var þetta alltaf stigvaxandi og gekk mjög vel“.

- Eru uppskriftirnar 45 ára?
„Já, sumar þeirra. Snúðarnir, fransbrauðið, formkökurnar eru eftir uppskrift frá upphafi“.

- Eitthvað sem hefur verið vinsælla en annað?
„Formkökurnar og normalbrauðið hefur alltaf slegið í gegn. Einnig snúðarnir og vínarbrauðið“.

- Það er oft talað um að vinnudagurinn hjá bökurum sé mjög langur. Þið byrjið snemma og eruð á ferðinni áður en aðrir bæjarbúar vakna.
„Vinnudagurinn er allan sólarhringinn, liggur við“.

- Er það lykill að velgengninni að þið hafið verið í þessu mikið sjálf?
„Já og vegna þess líka að við höfum haft áhuga á þessu og þetta hefur verið okkar áhugastarf. Lena kona mín hafði alltaf áhuga á því að afgreiða og umgangast fólk sem hún gerir einnig í dag. Ég kynntist henni þegar hún var að vinna í Gunnarsbakaríi,“ segir Valgeir og hlær.

- Stalstu henni úr öðru bakaríi?
„Já. Gunnar heitinn vildi nú helst að bakaríin sameinuðust en ég vildi það ekki“.

- Hafa viðskiptavinirnir eingöngu verið úr Njarðvík?
„Nei, þeir hafa komið frá öllu svæðinu. Við vorum í heilsölu um tíma en þegar við hættum því þá fór skútan verulega af stað. Heildsalan tók svo mikið frá okkur og við gátum ekki sinnt búðinni okkar hér í bakaríinu því það fór allt í heildsöluna“.

- Hvernig líst þér svo á nýjan eiganda bakarísins?
„Mér líst bara vel á hann og ég vona bara að Suðurnesjamenn taki vel á móti honum og ég veit að hann á eftir að gera góða hluti“.

- Áttu eftir að koma hingað og fá þér brauð og snúð?
„Það er ekki spurning. En ekki kannski snúð en vínarbrauð, já, vínarbrauðið hefur verið mjög gott hjá okkur í gegnum tíðina“.

- Ég get ekki sleppt þér án þess að spyrja þig hvað sé uppáhaldið þitt í bakaríinu?
„Endarnir eru alltof góðir,“ segir Valgeir og brosir sínu breiðasta. „Það var alltaf sagt við mann að það sé ekki hægt að gera upp á milli barnanna sinna og það verður mitt lokasvar,“ segir Valgeir Þorláksson, bakarameistari í Valgeirsbakaríi, að endingu.