Sjónvarp: Efnilegir leikarar í Grindavík
Leikritin Partýland og Vinsæld voru frumsýnd á árshátíð elsta stigs Grunnskóla Grindavíkur í síðustu viku. Nemendur í 7.- 8. bekkjum sýndu leikritið Partýland í leikstjórn Aldísar Davíðsdóttur og nemendur í 9.-10. bekk sýndu leikritið Vinsæld eftir Pálmar Guðmundsson í leikstjórn höfundar. Víkurfréttir fengu að fylgjast með generalprufum leikritanna.
„Þetta hefur gengið mjög vel. Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að taka svona verkefni að mér. Rauði þráðurinn í leikritinu er vinátta og það að vera vinsæll og hvort það sé eitthvað sem skipti máli. Krökkunum finnst þetta fyndið og hafa verið mjög áhugasöm og dugleg,“ segir Pálmar, leikstjóri og höfundur Vinsældar.
Aldís, leikstjóri og höfundur Partýlands, segir boðskap verksins vera þann að sama hvaða höft séu sett á mann, þá vilji maður samt hafa frelsi til þess að velja sjálfur. „Þetta er búið að vera merkilega stutt æfingaferli. Einhverjar þrjár vikur og örfáir tímar fyrir það. Þau eru búin að vera alveg á haus. En krakkarnir eru svo skapandi og gefandi. Þetta er búið að vera mjög góð samvinna.“
Að ofan er umfjöllun úr Suðurnesjamagasíni Sjónvarps Víkurfrétta um leikritin á árshátíðinni.