Sjónvarp: Draumurinn að opna sitt eigið bakarí
- Bakaraneminn Elenora Rós Georgesdóttir bakar fyrir Barnaspítala Hringsins
Það eru sennilega ekki margir unglingar sem fá Kitchen Aid hrærivél að gjöf en þegar bakaraneminn Elenora Rós Georgesdóttir fagnaði 16 ára afmælinu sínu á Þorláksmessu fékk hún slíkan grip frá fjölskyldunni í afmælis- og jólagjöf. „Það var rosalega gaman að fá hrærivélina enda hefur það verið draumurinn lengi að eignast slíka. Það féllu nokkur tár því ég átti ekki von á að fá hrærivél að gjöf fyrr en á brúðkaupsdaginn,“ segir Elenora sem hóf nám í bakaraiðn að loknum 10. bekk á síðasta ári.
Elenora fæddist með sjúkdóm og hefur því dvalið töluvert á Barnaspítala Hringsins í gegnum tíðina. Hún kveðst óendanlega þakklát fyrir alla þá hjálp og velvild sem hún hefur fundið frá starfsfólki spítalans og vill gefa til baka. Elenora hefur því ákveðið að baka kökur og selja og láta ágóðann renna til barnaspítalans. Hún byrjaði fyrir nokkrum vikum og ætlar að baka og safna út ágústmánuð. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel, eiginlega miklu betur en ég þorði að vona.“ Hægt er að panta kökur í gegnum Facebook-síðuna Le´ Nores Cakes.