Sjónvarp: Bora niður á 5000 metra dýpi á Reykjanesi
- Merkum áfanga náð og eiginleg djúpborun að hefjast á Reykjanesi
Búið er að bora og fóðra djúpborunarholu á Reykjanesi á 3.000 metra dýpi. Stefnt er að því að bora niður á allt að 5.000 metra dýpi. Fyrsta skipti sem borað er svo djúpt á jarðhitasvæði á Íslandi og líklega á háthitasvæði í heiminum öllum, segir forstjóri HS Orku.
Íslenska djúpborunarverkefnið hefur nú náð merkum áfanga þar sem búið er að bora og fóðra djúpborunarholu niður á 3.000 metra dýpi. Næsti áfangi hefst formlega í dag þegar boranir hefjast að nýju en stefnt er að því að bora niður á allt að 5.000 metra dýpi.
„Það er vandasamt verk að bora svona langt niður á háhitasvæði og ná að fóðra holuna og því mikið gleðiefni að það hafi tekist. Nú má í raun segja að hin eiginlega djúpborun sé að hefast á Reykjanesi,“ segir Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku.
Um er að ræða samstarfsverkefni um djúpborun á Reykjanesi sem leitt er af HS Orku og unnið í samstarfi við norska olíufélagið Statoil og önnur fyrirtæki innan íslenska djúpborunarverkefnisins (IDDP).
Tilgangur djúpborunarverkefnisins er að kanna hvort að framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum sem gæti aukið orkuframleiðslu háhitasvæða umtalsvert og þar með dregið úr umhverfisáhrifum og landrýmisþörf orkuvinnslunnar. Vinnslutækni djúprar borholu ræðst af því hvernig jarðhitavökvi finnst á 4-5 km dýpi. Reynist efnasamsetningin viðráðanleg og unnt verður að vinna yfirhitaða orkuríka gufu beint upp úr djúpu borholunni er það fyrsti valkostur sem mun þar með auka orkuvinnslu á Reykjanesi. Slík orkuvinnsla mun leiða til aukinnar nýtingar auðlindar og landsvæðis og draga úr umhverfisáhrifum vinnslunnar. Reynist efnasamsetning vökvans hins vegar of erfið, verður vatni frá yfirborði dælt ofan í holuna til að efla orkuvinnslu úr grynnri nærliggjandi holum. Við borun holunnar, prófanir, mælingar og vinnslu verður prófuð og nýtt ný tækni og búnaður, í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila.
„Þetta tilraunaverkefni verður mikið lærdómsferli fyrir okkur sem stöndum að þessu og við hjá HS Orku erum stolt af því að leiða þetta verkefni með öflugum samstarfsfélögum,“ segir Ásgeir.
Íslenska djúpborunarverkefnið hefur verið starfrækt í um 15 ár. Að IDDP standa íslensku orkufyrirtækin, HS Orka , Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, ásamt Orkustofnun og Statoil. Áður hefur djúpborun verið reynd í Kröflu í verkefni sem leitt var af Landsvirkjun. Ekki reyndist unnt að vinna úr þeirri holu en vonir standa til að aðstæður verði aðrar á Reykjanesi.
Íslenska djúpborunarverkefnið fékk styrk frá rannsóknaráætlun Evrópusambandsins uppá 1,3 milljarða króna til djúpborunarverkefnisins á Reykjanesi.