Sjónvarp: Bjargar súlu og drepur flær
– Maríuerlan gerir hreiður í híbýlum fólks og er með svæsna fló
Ragnar Guðleifsson meindýraeyðir fékk nokkuð sérstakt verkefni sl. sunnudag. Fólk sem var á göngu með hunda um Patterson-svæðið varð vart við óvenjulegt fuglalíf í einu af sprengjubyrgjunum á svæðinu. Lögreglan kallaði Ragnar á svæðið.
„Þegar lögreglan kallaði mig til fór ég og kíkti á þetta og þá voru fimm súlur inni í einu byrginu,“ segir Ragnar í samtali við Víkurfréttir. Þegar hann er spurður að því hvort það geti verið að súlurnar hafi farið inn í byrgið af sjálfsdáðum, segir Ragnar að fuglafræðingur hafi svarað því að það væri möguleiki. Gat er á vegg byrgisins og möguleiki er á að súlurnar hafi farið inn um það á flótta undan veðri. Það sé einnig líklegt að fuglunum hafi verið komið þar fyrir af mannavöldum.
Af súlunum fimm voru fjórar mjög sprækar og þeim var sleppt strax á sunnudag. Sú fimmta var í góðu yfirlæti hjá Ragnari fram á mánudagsmorgun, fékk hressingu og náði góðri heilsu til að takast á við lífið á ný. Ragnar fór með fuglana út á Reykjanes þar sem þeim var sleppt en í Eldey undan Reykjanesi er stærsta súlubyggð í Atlantshafi.
„Þessi er orðin vel spræk og farin að éta, þannig að það er óhætt að sleppa henni líka,“ sagði Ragnar við blaðamann og ljósmyndara Víkurfrétta sem fylgdist með þegar fluglinum var sleppt. „Hún á alveg að bjarga sér, hún er ekkert slösuð eða neitt svoleiðis“.
– Nú er að byrja vertíð hjá þér sem meindýraeyði þegar kemur að fuglum. Það er ekki flóafriður hjá mörgu fólki.
„Það er helst starrafló sem er að angra fólk og maríuerlan einnig. Hún er farin að gera sér hreiður í meira mæli í híbýlum manna og flóin af henni er skæðari en starraflóin. Flóin af maríuerlunni drepst hins vegar þegar hún hefur bitið, sem er nokkuð öfugmæli. Annars er ýmislegt sem ég fæst við, eiginlega allt sem hreyfist“.
Ragnar sér um að fanga lausa hunda og óskráða ketti. Hann segist í gamansömum tón eltast við allt sem hefur tvo fætur eða fleiri. Þannig sé kakkalakka að finna víða og sú tegund sem finnst aðallega hér sé svokallaður austantjalds-kakkalakki en sá ameríski finnist ekki.
Ragnar er að fjarlægja starrahreiður frá heimilum fólks og þá eru fyrstu geitungabúin farin að láta sjá sig. Eitt tók hann um daginn uppi á háalofti hér suður með sjó. Búið var orðið á stærð við körfubolta.
„Við höfum búið með ýmis konar kvikindum í fjölda ára en þolinmæðin fyrir þeim virðist víða vera á þrotum, enda borga þessar pöddur enga leigu,“ segir Ragnar í gamansömum tón.
Súlurnar sem hann kom til bjargar á sunnudag eru alls ekki þær fyrstu sem hann fæst við. Súlan virðist stundum tapa áttum í byggð og þarf að koma henni úr húsgörðum og til sjávar. Hann segir súluna vera nokkurn tíma að jafna sig eftir að hafa verið lokaðar í búri en svo taki þær flugið og stefna til hafs.