Miðvikudagur 8. júní 2016 kl. 06:00

Sjónvarp: Bilun að setja upp gróðrarstöð við sjóinn

„Ég byrjaði með ræktun hérna fyrir utan því ég ætlaði að bjarga Reykjanesskaganum. Svo fór ég að selja eina og eina plöntu og þetta vatt upp á sig,“ segir Gunnhildur Ása Sigurðardóttir, garðyrkjufræðingur og eigandi gróðrarstöðvarinnar Glitbrár í Sandgerði. Hún ólst upp í Sandgerði en flutti í nokkur ár til Noregs á níunda áratugnum. Þegar hún kom til baka fannst henni alveg vanta tré og gróður á Suðurnesjum og byrjaði því, eins og áður sagði, að fikta við ræktun  sjálf. Ræktunin er á landi Bárugerðis við  Stafnesveg 22  í Sandgerði þar sem Gunnhildur ólst upp. Ásamt því að reka gróðrarstöðina reka Gunnhildur og eiginmaður hennar, Geir Sigurðsson, Blómastofuna Glitbrá við Hafnargötu 25 í Reykjanesbæ.

Sjónvarp Víkurfrétta kíkti til Gunnhildar Ásu í Glitbrá á dögunum. Innslagið má sjá í spilaranum hérna fyrir neðan.