Sjónvarp: Aldrei fleiri konur í atvinnuflugnámi Keilis
- Sjáið Berglindi og Telmu Rut í skemmtilegu sjónvarpsinnslagi úr Suðurnesjamagasíni
Á undanförnum árum hefur kvenkyns nemendum í atvinnuflugi fjölgað ört og eru þær nú um fimmtungur heildarfjölda flugnema hjá Keili. Hlutdeild útskrifaðra kvenna úr atvinnuflugmannsnámi Flugakademíu Keilis er hinsvegar einungis um 12% frá því að skólinn hóf starfsemi fyrir um tíu árum síðan og var hægt að telja fjölda þeirra í skólanum á fingrum annarrar handar fyrstu árin.
En svo virðist sem aukinn áhugi sé á flugnámi meðal kvenna. Haustið 2018 leggja samtals 37 konur stund á atvinnuflugnám í Keili og hefur hlutfall þeirra aldrei verið hærra. Má segja að um vitundarvakningu sé að ræða, þar sem ungar konur sækja meira í hin hefðbundnu karllægu störf en áður.
Suðurnesjamagasín Sjónvarps Víkurfrétta ræddi við tvær flugkonur sem eru komnar langt í flugnáminu, þær Telmu Rut Frímannsdóttur og Berglindi Sveinbjörnsdóttur. Innslagið um þær er að finna í spilaranum hér að ofan.
Páll Ketilsson fréttamaður ræðir við þær Berglindi og Telmu í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta.