Sjónvarp: Áhugasamt flugfólk framtíðarinnar
- Flugbúðir Keilis voru haldnar í vikunni
„Þetta eru ungir krakkar en það er alveg ótrúlegt hvað þau vita mikið um flug,“ segir Heimir Snær Heimisson, þjálfunarstjóri hjá Keili og umsjónarmaður Flugbúða Keilis sem fóru fram í vikunni. Í búðunum gefst ungu fólki kostur á að kynna sér ýmsar hliðar náms sem tengist flugi. Heimir segir vikuna hafa verið virkilega skemmtilega. „Það er búið að vera algjörlega frábært hjá okkur í vikunni. Þau eru alltaf svo áhugasöm um flugið og spyrja margra spurninga sem maður er mjög hissa á,“ segir hann.
Flugbúðirnar í ár stóðu í fjóra daga, frá 13. til 16. júní. Á dagskránni var meðal annars heimsókn í flugskýli Icelandair, ferð á Sléttuna þar sem krakkarnir skoðuðu og fræddust um fisflugvélar, flugvirki, flugumferðarstjóri og flugmaður komu í heimsókn og sögðu frá störfum sínum, og haldnar voru kynningar á ýmsu tengdu flugi. Þá fengu allir nemendur að fara í flughermi hjá Keili. Nemendur komu víða að, til að mynda frá Egilsstöðum og Laugum. Flugbúðirnar hafa verið haldnar reglulega í nokkur ár og segir Heimir ekkert lát á áhuga unga fólksins á flugi.
Thelma Rakel Grétarsdóttir og Þorsteinn Karl Arnarsson voru meðal nemenda í flugbúðum Keilis í ár. Thelma segir það hafa verið mjög skemmtilegt að taka þátt í flugbúðunum og þá sérstaklega að skoða skýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Það hefur lengi verið draumur hennar að verða flugmaður. Þorsteinn er 11 ára, alveg að verða 12, og var mættur í flugbúðirnar annað árið í röð. „Það var svo gaman í fyrra að ég varð að koma aftur. Það er svo margt skemmtilegt að gerast hérna,“ segir Þorsteinn sem er harðákveðinn í að verða flugmaður í framtíðinni.