Sjónvarp: 1265 börn á Nettókörfuboltamóti
Tuttugasta og áttunda Nettómótinu í körfubolta lauk í Reykjanesbæ um síðustu helgi. Það er KarfaN, hagsmunafélag barna- og unglingaráða körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur, sem heldur mótið. Leikið er á fimmtán keppnisvöllum í Reykjanesbæ og Garði.
Að þessu sinni sendu 24 félög lið til keppni en alls kepptu 267 lið á mótinu. Liðin eru skipuð stelpum og strákum á aldrinum 5-10 ára.
Börnin sem tóku þátt í mótinu voru 1265 talsins, leikirnir næstum 600 talsins og það tók samtals 19 klukkustundir að leika alla leikina á mótinu. Það var ekki bara leikinn körfubolti, því margt annað var gert til skemmtunar. Börnin fóru í bíó, leiksvæði var opið í Reykjaneshöll og þá voru fjölmennar matarveislur, kvöldvaka og kvöldkaffi. Þá var haldin pizzaveisla á sunnudeginum þar sem pantaðar voru 470 pizzur af stærstu gerð frá Langbest.