Fimmtudagur 27. nóvember 2014 kl. 15:56

Sjófrysting, Súlan og söngur í sjónvarpi

- 36. þáttur Sjónvarps Víkurfrétta kominn á vefinn

Nýjasti þáttur Sjónvarps Víkurfrétta er kominn í háskerpu á vefinn. Þáttur vikunnar er nr. 36 á þessu ári en í honum förum við um víðan völl á Suðurnesjum. Þátturinn verður sýndur á ÍNN í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 21:30 og endursýndur kl. 23:30 og svo á tveggja tíma fresti í sólarhring. Síðasta sýning á þættinum verður kl. 19:30 á föstudagskvöld.

Í fyrri hluta þáttarins gerum við menningarverðlaunum Reykjanesbæjar skil. Guðný Kristjánsdóttir hlaut verðlaunin að þessu sinni en hún hefur verið burðarás í starfi Leikfélags Keflavíkur í yfir þrjá áratugi. Guðný er í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta.

Í seinni hluta þáttarins skoðum við stærsta fiskiskip Suðurnesjaflotans. Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 er farinn til veiða eftir miklar breytingar þar sem skipið var m.a. lengt um rúma 15 metra. Við ræðum við Eirík Óla Dagbjartsson útgerðarstjóra hjá Þorbirni hf. í þættinum.

Í þættinum förum við á skemmtilegan dansleik í Sandgerði sem haldinn var fyrir fatlaða einstaklinga og þá endum við þáttinn á tónlistaratriði frá sönghópnum Vox Felix. Hann heldur tónleika í Keflavíkurkirkju sunnudaginn 7. desember nk. Nánar verður greint frá þeim tónleikum í sérstakri frétt hér á vf.is.