Sjáðu bræðurna Guðmund og Ólaf Helga berjast
Í kvöld mæta Njarðvíkingar Þór frá Þorlákshöfn í Iceland Express-deild karla í körfubolta. Með liði Þórsara leikur Njarðvíkingurinn Guðmundur Jónsson en hann gekk til liðs við nýliðana fyrir núverandi tímabil. Í Njarðvíkurliðinu leikur yngri bróðir Guðmundar, Ólafur Helgi sem hefur verið sprækur í ungu liði Njarðvíkinga það sem af er tímabili og er hann jafnframt fyrirliði liðsins.
Þeir bræður voru til í að bregða á leik með Víkurfréttum og við áváðum að leggja fyrir þá nokkrar laufléttar spurningar um íslenskan körfubolta. Auk þess kepptu bræðurnir, sem jafnan eru þekktir sem miklar þriggjastigaskyttur í skotkeppni sem sjá má í meðfylgjandi myndbandi.
Hér að neðan eru spurningarnar og rétt svör fyrir aftan
1. Árið 2003 mættust Njarðvík og Keflavík í úrslitaleiknum í fyrirtækjabikarnum. Njarðvíkingar sigruðu 90-83 í leik þar sem Guðmundur nokkur Jónsson fór mikinn þá aðeins 19 ára gamall. Hvað skoraði Guðmundur mörg stig í þessum leik? 23
1. Ólafur Helgi Jónsson fór hamförum í úrslitaleik Íslandsmótsins í drengjaflokk á síðasta ári þegar kappinn skoraði 40 stig og hirti 20 fráköst . Hvað skoraði Ólafur Helgi margar þriggjastiga körfur í leiknum? 10/14.
2. Geturðu nefnt þann leikmann sem hefur leikið með Keflavík, Njarðvík og Grindavík í meistaraflokki karla? Nick Bradford
3. Hver söng fyrsta Njarðvíkurlagið? Friðrik Ragnarsson
4. Hver var valinn besti ungi maður úrvalsdeildar karla tímabilið 2008-2009: Rúnar Ingi Erlingsson þá leikmaður Breiðabliks
5. Hver á að baki flesta A-landsleiki kvenna, eða 76 talsins? Birna Valgarðsdóttir
6. Hver er aðstoðarþjálfari kvennaliðs Keflvíkinga? Pétur Guðmundsson
7. Þeir bræður Þorleifur og Ólafur Ólafssynir eru að gera það gott með Grindvíkingum um þessar mundir, þeir eiga þó þriðja bróðirinn sem lék með meistaraflokki um skeið, hvað heitir hann? Jóhann
8. Með hvaða körfuknattleiksliði leikur markvörðurinn Óskar Pétursson? ÍG
9. Goðsögnin Teitur Örlygsson lék utan Íslands í skamman tíma, í hvaða landi lék Teitur og með hvaða liði? Grikklandi með Larissa
10. Hvaða leikstjórnandi lék í treyju númer 13 á gullaldarárum Njarðvíkinga? Ísak Tómasson
Ólafur Helgi sigraði stóra bróður með eins stigs mun en sennilega verður Friðrik Ragnarsson þjálfari hans ekki ánægður að heyra að Ólafur kannist ekki við gullbarkann í laginu sem Friðrik söng svo eftirminnilega hér um árið. „Þetta kom svo sem ekkert á óvart. Þetta er ekki hans sterkasta hlið, við skulum segja það,“ hafði Ólafur á orði eftir að hann hafði borið sigur úr bítum gegn Guðmundi stóra bróður sínum í spurningakeppninni.
Verður ekki skrýtið að mæta stóra bróður?
„Jú auðvitað. Hann er samt ekki bróðir minn inn á vellinum en þetta verður dáltið sérstakt,“ segir ólafur Helgi. Þeir bræður hafa einu sinni mæst stuttlega þegar að Guðmundur lék með Þór Akureyri og Ólafur fékk að spreyta sig í rétt rúma mínútu. „Núna erum við að fara að takast almennilega á. Maður hefur verið að æfa með honum og maður þekkir alveg inn á hann, sömuleiðis þekkir hann minn leik.
Var Guðmundur að láta þig finna fyrir því þegar þið vorum yngri? „Já bara svona eins og bræður eru held ég. Ég væri sennilega mýkri leikmaður ef það hefði ekki verið fyrir hans tilstilli,“ segir Ólafur sem er 8 árum yngri en Guðmundur.
Hann er á þeirri skoðunn að Þórsarar séu með hörkulið sem að sé erfitt við að eiga. „Ég sá þá gegn KR þar sem þeir voru óheppnir hreinlega að vinna ekki leikinn. Þeir eru með fáránlega góðan stuðning úr stúkunni. Við munum samt nálgast þennan leik eins og við höfum verið að gera hingað til. Við förum bara í leikinn til þess að vinna hann, og munum taka hart á þeim, það er engin leyniuppskrift að sigrinum.
Ólafur býst við því að Þórsarar fjölmenni á leikinn og vill því hvetja alla Njarðvíkinga til að mæta og styðja við bakið á liðinu sínu. „Þetta lið er að mörgu leiti svipað og við, það eru mikið að ungum leikmönnum að spila og mikil stemning í kring um liðið, svo að þetta verður hörku leikur.“
Guðmundur:
„Þetta er allt í lagi,“ sagði Guðmundur eftir ósigurinn gegn Ólafi. „Maður verður að gefa honum smá svo að hann brotnii ekki niður. Hann má alveg eiga þetta en við tökum svo leikinn í kvöld,“ sagði Guðmundur kokhraustur.
Verður ekkert skrýtið að mæta litla bróður sem nú er orðinn fyrirliði Njarðvíkinga?
„Eflaust verður þetta eitthvað furðulegt. Þetta er fyrsta alvöru tímabilið hjá honum og hann er búinn að standa sig mjög vel. Það verður bara gaman að sjá hvað hann hefur í stóra bróðir.
Þú veist væntanlega hvernig á að æsa strákinn upp? „Já þarf oft ekki mikið til þess að æsa hann upp. Hann er þó aðeins byrjaður að hafa stjórn á skapi sínu,“ segir Guðmundur, en hann neitar því ekki að hann geti alveg æst sig á vellinum. „Þegar maður var yngri þá átti maður það til að æsa sig, maður hefur þó róast með aldrinum.“
Varstu að láta hann finna fyrir því þegar þið voruð yngri?
„Já maður hefur gert svolítið af því í gegnum tíðina, það verður engin breyting á því í leiknum í kvöld.“
En hvenig leggst leikurinn í þig?
„Mér líst vel á þennan leik gegn Njarðvíkingunum. Fyrir tímabilið vissi maður ekkert hvernig þessir strákar myndu standa sig. Þeir eru búnir að spila lengi saman og hafa verið að æfa eins og vitleysingar undanfarin 2-3 ár og þeir eru í dúndurformi.“ Guðmundur segist jafnframt skynja það að andrúmsloftið sé betra í kringum Njarðvíkurliðið en oft áður. „Þetta eru ungir strákar sem vilja sanna sig og hafa engu að tapa. Áhorfendur vita það og standa mjög vel við bakið á þeim. Þarna eru allir að gera þetta fyrir ánægjuna og mikil jákvæðni í kringum liðið.“
Guðmundur segir að Þórsarar séu enn að slípa sig saman og hann spáir hörkuleik í kvöld. „Það er ekkert gefið að fara í Njarðvík og vinna, þó að liðið sé ungt og allt það. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að leikurinn yrði spennandi allt til loka. Bæði lið eru mikið fyrir hraðan bolta því held ég að þessi leikur verði hraður og hin besta skemmtun,“ sagði Guðmundur að lokum.