Sandfok lokar sundlauginni og íbúar í Vogum ráðþrota yfir ryki og drullu - myndir
Sundlaugin í Vogum er lokuð þar sem sandur liggur yfir öllu sundlaugarsvæðinu og er í sundlauginni, heitum potti og vaðlaug. Ástandið er ekki ósvipað því sem íbúar á Suðurlandi kynntust þegar öskufall frá gosinu í Eyjafjallajökli lagðist yfir stór svæði í vor og sumar.
Sandfokið í Vogum kemur frá íþróttasvæði sem er í uppbyggingu á baklóð íþróttahússins. Fjölmörg hús í nágrenninu eru brún af ryki og drullu og fínn sandur blæs inn um glugga og hurðir þannig að fólk hefur vart undan að þrífa.
Á einu heimili í Vogum var húsráðandi orðin ráðþrota í dag eftir að hafa farið um þrívegis og þurrkað af og sópað. Húsbóndinn á heimilinu sagði bílskúrinn vera að fyllast af sandi, auk þess sem sandur var kominn inn um öll gólf og í glugga.
Byggingafulltrúinn í Vogum hefur sent frá sér tilkynningu sem segir að vegna sandfoks frá íþróttasvæðinu skal þeim sem telja sig verða fyrir tjóni bent á að setja sig í samband við Vátryggingafélag Íslands sem sé tryggingafélag Nesprýði, sem sé verktaki íþróttasvæðisins
„Hafa skal þá samband við tryggingafélagið og tilkynna tjónið þangað, símleiðis og t.d. með tölvupósti og/eða skriflega. Væntanlega getur tryggingarfélagið upplýst með hvaða hætti kröfugerðin þarf að vera,“ segir byggingafulltrúi Voga á heimasíðu Sveitarfélagsins.
Meðfylgjandi myndskeið var tekið í sundlauginni í Vogum í dag en þær myndir, sem og meðfylgjandi ljósmyndir, sýna hversu alvarlegt ástandið er.
Horft yfir sundlaugarsvæðið í Vogum. Óspennandi að fara þar í sund í dag.
Sundlaugarbotninn er þakinn sandi og drullu.
Það hefur verið skafrenningur í Vogum í dag. Þar skefur hins vegar ekki snjó, heldur sandi!
Moldar- og sandfok er frá íþróttasvæði á bakvið íþróttahúsið í Vogum. Sjáið þakið á íþróttahúsinu. Sömu sögu er að segja af mörgum öðrum húsum í Vogum.
Hús í Vogum eru drullug að utan og moldarryk og fínan sand má sjá um allt.
Hér er eitt dæmi um það hvernig rykið og drullan fer inn um lokaða glugga.
Þykkt lag af ryki og drullu á bíl sem stendur í einni heimreiðinni.
Hér þarf að taka fram þvottagræjurnar um leið og lægir. Þetta hús á að vera hvítt!
Sandur fýkur inn um hurðir og glugga. Hér var búið að sópa þrisvar í dag þegar húsráðandi gafst upp.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson